149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að þetta sé alveg rétt hjá honum, hvernig hann sér þetta fyrir sér. Þetta er ekkert leyndarmál. Þetta er orkustefna Evrópusambandsins. Það verður þetta frjálsa flæði raforkunnar eins og vöru og þjónustu, þetta er bara partur af fjórfrelsinu.

Ég held að kjarni málsins í þessu hvað okkur varðar sérstaklega sé hreina orkan. Hún verður æ dýrmætari með degi hverjum. Við þekkjum það. Það tengist náttúrlega loftslagsbreytingunum sem allar þjóðir glíma við og mengunarkvótar og annað slíkt fara hækkandi með hverju árinu. Þess vegna skiptir afar miklu máli að hafa aðgang að hreinni orku. Eins og ég hef rakið í ræðu minni er þetta markmiðið með orkupakkanum þegar horft er til okkar. Að þeir fái, Evrópusambandið, aðgang að okkar hreinu orku. Þá erum við búin að missa þessa sérstöðu okkar. Við þekkjum að það er markaðslögmálið sem gildir. Þegar menn sjá fram á mikla arðsemi þess að selja héðan orku til Evrópusambandsins, fyrirtæki eins og Landsvirkjun og fleiri, það eru einkafyrirtæki í orkugeiranum sem myndu að sjálfsögðu sjá hag sinn í því að flytja orkuna út, þá gildir bara lögmál markaðarins. Það er framboð og eftirspurn og verð. (Forseti hringir.) Þá verður minna í kerfinu hér heima sem þýðir að það þarf að (Forseti hringir.) borga meira fyrir rafmagnið og heimilin þurfa að borga hærra verð.