149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:38]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Fallorkan er ein mikilvægasta auðlind okkar, ef ekki sú allra mikilvægasta. Um það getum við öll verið sammála. Við hófum í upphafi síðustu aldar að virkja þessa auðlind. Upp úr miðri síðustu öld hófum við Íslendingar að reisa stórvirkjanir og seldum þá orku sem þá var beisluð til stóriðju. Hugmyndin var allt frá upphafi að þegar þessi fjárfesting, sem var risavaxin í samanburði við okkar litla þjóðfélag á þessum tíma, væri uppgreidd myndi þjóðin njóta ávaxtanna og íbúarnir horfðu fram á bjartari tíð og lægri orkureikninga.

Síðar komu fleiri stórvirkjanir og fleiri stóriðjur, reyndar flestar að framleiða sömu vöruna en við féllumst á þetta væru í raun fórnir sem vert væri að færa þar sem næstu kynslóðir myndu njóta góðs af. Stórvirkjanirnar voru frá upphafi í eigu þjóðarinnar sem og dreifikerfið og við höfum notið þess að raforka er tiltölulega ódýr hér á landi og við eigum að standa vörð um þessi verðmæti sem fyrri kynslóðir hafa byggt upp í okkar þágu til langrar framtíðar.

Herra forseti. Nú liggur fyrir hér á Alþingi þingsályktunartillaga um að innleiða þriðju sendinguna af orkulöggjöf Evrópusambandsins. Hann er þannig kominn hingað inn í sali Alþingis til síðari umræðu þessi margumtalaði þriðji orkupakki sem margir hafa sterkar skoðanir á. Þessi pakki, ef ég má nota það orð yfir þær tillögur til þingsályktunar og frumvörp sem við fjöllum nú um, er hreint ekki auðlesinn og þaðan af síður auðskilinn.

Í tillögunni kemur fram að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017 frá 5. maí 2017, um breytingu á IV. viðauka, sem fjallar um orku, við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn tilteknar gerðir. Svo eru taldar upp fjórar reglugerðir Evrópuþingsins, tvær tilskipanir þess og tvær ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar sem ganga út á að breyta og bæta við viðauka við tilteknar reglugerðir Evrópuþingsins.

Með þessari þingsályktunartillögu er verið að aflétta svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara. Þingsályktunartillagan sem hér liggur frammi er að efni sínu yfirlýsing Alþingis um að Ísland skuldbindi sig til að aflétta þeim stjórnskipulega fyrirvara sem við gerðum fyrir sameiginlegu EES-nefndinni. Þessi stjórnskipulegi fyrirvari gengur út á það að Ísland hafði flaggað fyrir EES-nefndinni til að sýna að með því að taka upp viðkomandi gerðir þurfi aðkomu löggjafarþings landsins, þ.e. samþykki Alþingis.

Þessi þingsályktunartillaga, herra forseti, er í raun yfirlýsing Íslands, löggjafarþingsins, um að ekkert standi í veginum eða megi standa í veginum fyrir því að viðkomandi reglugerðir gildi og verði þannig að taka gildi hér á landi. Þetta er skuldbindingin sem við munum undirgangast með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu ef það verður raunin hér. Þetta er skuldbindingin. Þegar því er lokið er Ísland skuldbundið til að innleiða þær gerðir sem undir eru í orkupakkanum og gera nauðsynlegar lagabreytingar innan lands svo að efni pakkans öðlist fullt gildi hér á landi. Þetta ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera hér eða þetta stendur til að gera.

Herra forseti. Þetta ætla þeir að gera með lagalegum fyrirvara. Hvað er það og hver hann? Þannig gæti einhver spurt og hefur reyndar spurt hér í dag. Hver er þessi lagalegi fyrirvari að sögn stjórnarliða? Hann er sá að lagabálkurinn gildi ekki að öllu leyti hér á landi þar sem við erum ótengd raforkukerfi annarra Evrópulanda. Þar er helst vísað til þess að framkvæmdastjóri orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi sagt að Ísland væri eyja og með hliðsjón af því hafi stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans ekki gildi eða raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkustrengur er til staðar. Reglugerðin, það er reglugerð nr. 713/2009, eigi ekki að hafa nein merkjanleg áhrif á fullveldi Íslands í orkumálum. Síðan er bent á sameiginlega yfirlýsingu EFTA-landanna frá 8. maí sl. á svipuðum nótum. Þar er undirstrikað að raforkukerfi Íslands sé eins og stendur — já, eins og stendur — einangrað kerfi og ekki tengt raforkusæstreng milli Íslands og orkumarkaðar Evrópusambandsins. Í því ljósi hafi stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, sem varðar viðskipti með raforku yfir landamæri, ekki gildi eða raunhæfa þýðingu á Íslandi.

Það er ekki neinn vafi á því, herra forseti, að þær yfirlýsingar sem ég var hér að nefna, þessar tvær yfirlýsingar um sameiginlegan skilning, eru ekki þjóðréttarlega skuldbindandi skjöl. Til að svo geti verið er nauðsynlegt að bæði ESB, Evrópusambandið og EFTA-löndin komist að samkomulagi. Það samkomulag verður að vera sett sem viðauki við EES-samninginn. Áður en það er hægt verða samningsaðilarnir, sem eru öll aðildarríki Evrópusambandsins og EFTA-löndin, að fjalla um málið.

Þetta ferli hefur ekki átt sér stað og yfirlýsingarnar því í hæsta falli loftkenndir óskadraumar sem munu ekkert vægi hafa hjá ESA, ESB-dómstólnum eða EFTA-dómstólnum. Er mönnum alvara? Er það boðlegt, herra forseti, að selja þjóðinni innleiðingu á þessu regluverki og segja svo við fólk í einhvers konar friðþægingarskyni að settur sé lagalegur fyrirvari sem er í raun ekkert nema benda á þá staðreynd að Ísland sé eyja og þannig þurfi að leggja sæstreng svo að við tengjumst sameiginlegum raforkumarkaði Evrópu? Herra forseti, er mönnum alvara? Er þetta lagalegi fyrirvarinn? Á ég að trúa því? Er þetta lagalegi fyrirvarinn sem átti að slá á allar áhyggjur fólks? Ef ég er að misskilja eitthvað þá auglýsi ég hér með eftir því hver þessi lagalegi fyrirvari sé og hvar hann sé að finna.

Herra forseti. Eitt er víst að með því að fella brott stjórnskipulega fyrirvarann erum við skuldbundin, já, skuldbundin, til að innleiða regluverk þriðja orkupakkans. Að þessu sögðu má sjá að svokallaður lagalegur fyrirvari er í besta falli illskiljanlegur í þessu samhengi og fremur mætti segja að hann væri nýlunda á sviði sjónhverfinga. Þannig skuldbindur Ísland sig til að innleiða reglurnar en segir svo hér innan lands að sumt af þessum reglum muni ekki gilda hér á landi fyrr en ákveðnir atburðir gerist. Að halda því svo fram að þessi aðferð við innleiðinguna veiti okkur frelsi frá innleiðingunni, einhvers hluta þessara reglna, er því stór misskilningur, herra forseti. Það kom áþreifanlega í ljós í gær fyrr á þessum sama fundi þegar einfaldlega var spurt hvar þennan lagalega fyrirvara væri að finna í regluverkinu.

Herra forseti. Svörin voru fátækleg og það kom í ljós að keisarinn var ekki í neinum fötum. Fyrst var bent á viðræður sem hæstv. utanríkisráðherra átti við framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn ESB og þar fælist lagalegi fyrirvarinn, hann væri þar að finna. Ég er búinn að fara yfir það hér fyrr í minni ræðu. Síðan var bent á yfirlýsingu EFTA-ríkjanna, að þar væri þennan lagalega fyrirvara að finna. Ég er búinn að fara yfir það. Þriðja skýringin var að lagalega fyrirvarann væri að finna í frumvarpi til breytinga á raforkulögunum. Ef sú breyting er skoðuð þá er þar verið að bæta inn 5. mgr. 9. gr. — ákvæði í lögin, sem hvað? Reyndar er nú þegar að finna næstum samhljóða ákvæði í raforkulögunum í 39. gr. a. Hvað er þetta? Fjórða skýringin var sú að þetta yrði sett inn síðar í sérstakri reglugerð einhvern tímann síðar. (BÁ: Strax í innleiðingarreglugerð.) Hvar þessi reglugerð? (Gripið fram í.)

Herra forseti. Niðurstaðan er sú að stjórnarliðum ber ekki saman um hver þessi lagalegi fyrirvari sé. Svör þeirra benda til þess að hann sé enginn. Svo virðist sem verið sé að beita orðskrúði til að setja málið í meira aðlaðandi búning og þegar skrúðanum er flett frá er ekkert innihald. Reglugerð EB, nr. 713/2009, mun engu að síður taka gildi á Íslandi ef þingsályktunartillagan sem við erum hér að fjalla um verður samþykkt. Í reglugerðinni, nr. 713/2009, er gert ráð fyrir að ACER geti tekið lagalega bindandi ákvarðanir sem snúa einkum að grunnvirkjum fyrir raforku sem gætu tengt tvö aðildarríki. Hvað EFTA-ríkin snertir er gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, fari með þær valdheimildir sem ACER eru veittar í reglugerðinni.

Eitt stærsta álitamálið og eitt af þeim atriðum sem lögspekingar telja vafa undirorpið, hvort slíkt vald valdframsal standist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er þetta atriði. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að ACER hafi mikil áhrif á efni slíkra ákvarðana ESA og skulu ákvarðanir ESA m.a. teknar á grundvelli draga sem ACER semur fyrir ESA. Þetta er eitt af þeim stóru vafamálum varðandi það hvort regluverkið standist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þ.e. hvort verið sé að að gefa alþjóðlegri stofnun slíkt vald sem ég var að nefna, að þessi stofnun, sem við höfum enga aðkomu að, ACER, taki í raun þessar ákvarðanir.

Varðandi samninga, herra forseti. Það má segja um samninga, stóra sem smáa, að þeir séu alla jafna gerðir báðum samningsaðilum í hag og þannig að báðir samningsaðilar séu sæmilega sáttir. Stór samningur eins og samningurinn um EES-svæðið er hagfelldur öllum aðilum hans og öllum sem að honum koma. Það að halda því fram að jafnstór samningur sé í uppnámi samþykkjum við ekki reglugerð sem samin er löngu eftir að upphaflegi samningurinn er gerður er fásinna. Eins og staðan er í dag er hann til hagsbóta fyrir alla að mestu leyti. Því skyldi hann vera í uppnámi þó að við Íslendingar séum efins og viljum vera þess fullviss að viðaukar við hann samrýmist stjórnarskrá okkar og leitum eftir undanþágum, þar sem hluti af regluverkinu kann ekki að eiga við hér á landi. Er það eitthvað óeðlilegt? Við höfum gert það. Af hverju var það ekki gert í þessu máli fyrst sæstrengur liggur ekki hingað?

Í 1. mgr. 1. gr. samningsins kemur fram að markmið hans sé að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði, þ.e. EES.

Herra forseti. Alþingi Íslendinga, sem löggjafarvald aðildarríkis EES-samningsins, er ekki rétti vettvangurinn til að gera breytingar, setja undanþágur eða lagalega fyrirvara varðandi innleiðingu ESB-gerðanna sem ekki koma fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er bara svo einfalt. Allt tal um lagalegan fyrirvara á ekki við. Ekki hér á þessum stað, ekki nema búið sé að ganga frá því á vettvangi nefndarinnar. Það er bara svo einfalt. Undanþágur eru veittar ríkjum varðandi gildi gerðanna eingöngu í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þær verða ekki gerðar með lagalegum fyrirvörum í landsrétti ríkjanna.

Það er nefndin sem kveður á um það í ákvörðun sinni ef ESB-gerð á ekki að hafa gildi gagnvart einstökum ríkjum eins og mörg dæmi eru um og hafa verið nefnd hér í fyrri ræðum, eins og með járnbrautir og skipaskurði og gasleiðslur og allt hvað eina sem á ekki við hér á landi. Og þetta hefur ekki verið tekið upp í íslenskan rétt. Við höfum fengið undanþágur. Af hverju ekki á þessu sviði, á sviði raforku á milli landa þegar staðreyndin er sú, herra forseti, að hingað liggur enginn sæstrengur sem leitt getur rafmagn og er ekki í augsýn svona alveg á næstunni? Hví erum við þá að innleiða þetta regluverk?

Herra forseti. Í 4. mgr. 102. gr. EES-samningsins kemur fram að ef ekki er unnt að komast að samkomulagi um breytingar á viðauka við EES-samninginn, þrátt fyrir beitingu undanfarandi málsgreinar, skuli sameiginlega EES-nefndin kanna alla frekari möguleika á því að tryggja áframhaldandi góða framkvæmd samningsins og taka nauðsynlegar ákvarðanir þar að lútandi, m.a. að viðurkenna að löggjöf sé sambærileg, taka verður slíka ákvörðun eigi síðar en við lok sex mánaða tímabils frá því að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar eða á gildistökudegi samsvarandi löggjafar bandalagsins eða síðar.

Herra forseti. Af hverju nýtum við okkur ekki þessa leið? Er það ekki augljóst? Að segja að það hafi aldrei verið gert í 25 ára sögu samningsins er fyrirsláttur. Það er ofureðlilegt að aðilar EES-samningsins nýti þau úrræði sem er að finna í samningnum sjálfum, jafnvel þótt þau hafi aldrei verið nýtt áður.

Herra forseti. Í lok máls míns og með vísan í það sem ég hef verið að segja, aðallega um þennan lagalega fyrirvara og það að þessari gerð verði vísað til nefndarinnar, þá er ég hissa á því að stjórnarliðið keyri þetta mál áfram af því offorsi sem hér er og ætli að gera það. Ég er hissa á því. Ég er líka hissa á því vegna þess að réttmætar spurningar, eins og þetta með lagalega fyrirvarann, hafa vaknað og ég hef skýrt það í mínu máli hvað ég sé ekki. Ég sé ekki þennan lagalega fyrirvara og ég hef ekki fengið skýringar á því. Málið er keyrt í gegn, jafnvel þótt langflestar umsagnir til utanríkismálanefndar væru neikvæðar. Þær sem voru jákvæðar voru aðallega stofnanaumsagnir. Jafnvel þótt heilmikil andstaða sé meðal þjóðarinnar, eins og kemur fram í skoðanakönnunum, (Forseti hringir.) jafnvel þótt heilmikil andstaða sé innan stuðningsmanna stjórnarflokkanna (Forseti hringir.) við þetta, jafnvel þótt mikil andstaða sé meðal stuðningsmanna þeirra stjórnarandstöðuflokka (Forseti hringir.) sem styðja þó málið, þá er þetta mál keyrt svona í gegn og á að keyra í gegn núna að næturlagi.