149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir ræðuna. Þetta er önnur ræða þingmannsins, að mér telst til, málinu og var mjög margt áhugavert í henni.

Eitt sem mig langar aðeins að ræða við hv. þingmanninn eru þau sjónarmið sem hann setti fram varðandi fyrirvarana. Ég lýsti því fyrr í dag að það leit út fyrir að vera mikil paník þegar það rann upp fyrir mönnum að þeir vissu ekki hvernig þessir fyrirvarar litu út. Og nú er talan komin upp í fjóra, sem stuðningsmenn málsins hafa vísað í. Það er svo sem ágætt, kannski komast þeir upp í fimm og sex þegar umræðunni vindur fram.

Hvernig horfir það við þingmanninum ef spurt er: Nú hafa þessir sérfræðingar, Stefán Már Stefánsson og Friðrik Hirst, sem mikið hefur verið vitnað til í umræðunni og hafa lagt fram þá greinargerð sem sannarlega mest umræða hefur spunnist um, svarað því til á nefndarfundi að þeir hafi ekki séð fyrirvarana. Nú liggur fyrir að allir þessir fjórir meintu fyrirvarar lágu fyrir á þeim tíma þannig að það er fullvíst að þeir hafi séð þau tilteknu textabrot. Les hv. þingmaður eitthvað í það að þessir mestu sérfræðingar okkar í þessum málum telji sig ekki hafa neina fyrirvara? Er það merkjasending um að þessir meintu fyrirvarar séu eins traustir og haldið (Forseti hringir.) er fram við okkur?