149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og ég sagði í lokin á mínu fyrra svari hlýtur framlag stjórnvalda til orkuskipta í samgöngum að vera að byggja upp þá innviði sem þarf til að stuðla að því að innviðir, sérstaklega milli svæða, byggist upp þannig að við getum tryggt rafvæðingu samgangna um landið allt. Þetta er bara einn þáttur af því sem þarf að gera. Við erum sömuleiðis að setja okkur metnaðarfull markmið og töluverða fjármuni í aukna kolefnisbindingu sem hlýtur alltaf að verða hluti af þessari áætlun.

Síðan vil ég segja það, af því að hv. þingmaður nefnir þau hlutföll sem þurfi að renna til loftslagsmála, sem gert er ráð fyrir af alþjóðastofnunum, að þar er ekki bara gert ráð fyrir framlögum hins opinbera þó að vissulega séu þau mikilvæg. Ég þreytist ekki á að segja það að atvinnulífið þarf að koma af fullum krafti inn í þetta mál til að takast á við þá áskorun sem er fram undan. Ég vil leyfa mér að fagna því að mér hefur fundist atvinnulífið vera að lýsa því mjög sterkt yfir að það vilji taka þátt í þessu verkefni og það þarf að taka þátt í þessu verkefni. Við munum ekki ná árangri nema stjórnvöld, ríki, sveitarfélög og atvinnulífið taki höndum saman.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Við megum ræða þessi mál miklu meira hér í þingsal.