149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

alþjóðasamvinna og staða ungs fólks.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil fyrst segja að ég tel mjög mikilvægt að við sem hér sitjum á Alþingi hlustum eftir röddum ungs fólks. Hv. þm. Logi Einarsson vísaði líka til þeirra radda í tengslum við loftslagsmálin. Nú er það svo að ungt fólk talar með skýrum hætti í þessari auglýsingu um að fjölþjóðlegt samstarf og samstarf við önnur lönd skipti það máli. Vissulega er það svo að samstarf við önnur lönd hefur alltaf skipt okkur Íslendinga máli. Alveg frá því að land var byggt hafa Íslendingar lagt upp úr því að eiga samskipti við önnur ríki.

Ég held að fá ríki og fáar þjóðir viti það betur en þær þjóðir sem eru litlar og leggja mikið upp úr sjálfstæði sínu hversu miklu það skiptir að eiga samskipti við önnur ríki á jafnræðisgrunni. Við skulum heldur ekki gleyma því að fjölþjóðlegt samstarf hefur skilað mörgum af þeim framfaramálum í mannkynssögunni sem ég held að ekkert okkar myndi vilja vera án. Við getum tekið sem dæmi mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Við fögnuðum afmæli hennar í fyrra, minnir mig, nema það hafi verið ár, ég er svo rugluð í tímanum. Þetta er eitt af merkilegri plöggum stjórnmálasögunnar. Ég veit ekki hvort við myndum ná jafn framsækinni niðurstöðu núna þegar við sjáum stoðir alþjóðlegs samstarfs titra vegna þeirra afla sem telja að fullveldinu sé ógnað með því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.

Ég verð að segja að mér fannst það góð spurning sem Skúli Magnússon héraðsdómari varpaði fram, hvort Íslendingar óttuðust kannski fyrst og fremst eigið fullveldi og þær ákvarðanir sem þeir sjálfir taka. Við sem lítil þjóð en um leið þjóð sem kann að meta sjálfstæði sitt, líklega betur en mjög margar aðrar þjóðir — saga þess er ekki löng, við fögnuðum 100 ára afmæli fullveldis hér í fyrra — vitum hversu miklu það skiptir að vera í slíku samstarfi á jafnræðisgrundvelli en tryggja um leið framfarir sem ekki eru bara hér heima heldur líka að heiman. Það er auðvitað það sem þetta unga fólk kallar eftir, það er rétturinn til að geta lifað og starfað og búið hvar sem er.