149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

alþjóðasamvinna og staða ungs fólks.

[15:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Já, ég vil taka undir með forsætisráðherra hvað fullveldið varðar. Við Íslendingar höfum mjög meðvitað beitt okkar fullveldi í alþjóðasamstarfi og verið þátttakendur, fullgildir þátttakendur, í alþjóðasamstarfi og styrkt þannig okkar fullveldi, hvort sem það er EES-samningurinn, EFTA — ég vil nefna NATO, svo ég tali nú ekki um Sameinuðu þjóðirnar eins og nefnt var.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, af því að við fengum þessa áberandi auglýsingu með andlitum — þau voru ekkert að fela, unga fólkið í þessari auglýsingu, kostaði auglýsingarnar sjálft, steig fram, eins og ég gat um áðan. Fyrir tæplega einu og hálfu ári spurði ég hæstv. forsætisráðherra að því hvað hún ætlaði að gera varðandi hulduauglýsingar og „fake news“, virðulegur forseti, í pólitík. Hvað átti að gera? Það átti að skoða hlutina. Það hefur lítið komið út úr þessu, en mér finnst þessi auglýsing í dag minna okkur á að hægt er að koma heiðarlega fram með auglýsingum sem snerta okkar pólitík, okkar starf hér á þingi. Þessi auglýsing er áminning til okkar allra um að standa vaktina (Forseti hringir.) þegar kemur að því að halda uppi veldissprota okkar Íslands í alþjóðasamstarfi.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað með hulduauglýsingarnar? (Forseti hringir.) Þær eru bein atlaga að lífi og starfi og réttindum (Forseti hringir.) þess fólks sem var í auglýsingunni í dag.