149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

staða Landsréttar.

[16:00]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda þessa umræðu og tek undir að mikilvægt er að ræða stöðuna í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég er ánægð með þá ítarlegu vinnu sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir hér í upphafi málsins fyrir þá ítarlegu vinnu sem fram fór af hálfu ríkislögmanns og sérfræðinga áður en beiðni um endurupptöku hjá yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu var send. Vandaður undirbúningur áfrýjunar til yfirréttarins er undirstaða þess að mögulegt sé að fá svar við þeim álitaefnum sem uppi eru í því ferli sem þar er fram undan.

Ég tek líka undir með hæstv. ráðherra að eftir því sem mál skýrast þarf að vinna áfram af ábyrgð og sérstakri yfirvegun að lausn álitamálanna sem eru uppi og verða uppi. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk um mánaðamótin mars/apríl þrjá sérfræðinga til fundar við sig til að fara yfir málin, fjalla um álitaefnin og þær spurningar sem hugsanlega þarf að svara í framhaldinu. Það var mjög gagnleg umræða.

Margar spurningar voru ræddar en enn fleiri spurningar vöknuðu og engin einhlít svör fengust á fundi nefndarinnar. Í því ljósi tel ég mjög óskynsamlegt að taka frekari ákvarðanir varðandi úrvinnslu dómsins fyrr en ljóst er hvort málið verði tekið fyrir í yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu.

Að lokum vil ég þakka hv. þm. Höllu Gunnarsdóttur fyrir gott yfirlit yfir söguna, en ítreka það sem ég hef áður komið inn á í umræðum um þessi mál: Hvernig ætlum við að búa þannig um hnútana til framtíðar að jafnréttislög (Forseti hringir.) og jafnrétti ríki við skipan dómara á öllum dómstigum? Því að það er það sem vantaði upp á ferlið sem Halla fór yfir.