149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvaða heimildir hv. þingmaður hefur varðandi Frakkland, fyrst hann tók upp á því að nefna það. Ég var einfaldlega að lesa upp úr Reuters þar sem stendur að Frakkar hafi verið að reyna að semja við Evrópusambandið um að standa við gefin loforð um að skipta upp ríkisreknum orkufyrirtækjum sínum. Það er vegna þess að Evrópusambandið gerði þá kröfu, hv. þingmaður.

Það er svolítið sérstakt að sjá hv. þingmann, fulltrúa Vinstri grænna, koma hingað í ræðustól og berjast fyrir því að markaðsvæða orkuna, berjast fyrir því að gera rafmagnið og orkuna að verslunarvöru. Þetta er eitthvað sem maður hefði ekki trúað að myndi sjást hér af hálfu Vinstri grænna. En svona er þetta nú. Svona eru nú heimurinn hverfull. Enda veltir maður stundum fyrir sér hvort Vinstri græn séu orðin hægri flokkur eða sé í rauninni vinstri flokkur. Einhver góður fyrrverandi þingmaður og ráðherra spurði reyndar hvort það ætti að taka orðið „hreyfing“ úr heiti þessa flokks. Svona er nú lífið.

Þingmaðurinn spurði hvort ég vissi um einhverjar hótanir eða þvinganir af hálfu Evrópusambandsins. Ég er búinn að nefna tvær. Svo ég tali fyrir mig persónulega, ég ætla ekki að tala fyrir alla þingmenn í Miðflokknum eða alla aðra sem hafa efasemdir um þetta, hef ég miklar áhyggjur af því skrefi sem við erum að taka með því að innleiða þessa tilskipun í dag.

Ég held að séum að færast nær því að tengja Ísland markaðsvæðingu evrópska orkumarkaðarins. Það gerum við með því að taka inn og innleiða þær stofnanir og þau völd sem Evrópusambandið hefur búið til á Íslandi. Það kann vel að vera að áhrifin séu takmörkuð í dag og verði takmörkuð á morgun eða engin um tíma. En hvernig verða þau þegar við erum komin lengra inn í framtíðina? (Forseti hringir.) Þegar við erum búin að innleiða orkupakka fjögur, fimm og sex o.s.frv.? Þegar markmiðið er augljóst, sameiginlegur, einsleitur samkeppnisraforkumarkaður sem Vinstri græn styðja.