149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða orkupakka þrjú. Það sem vekur kannski mesta furðu í þessari umræðu er hvaða ríkisstjórn er við stýrið að stýra þessum pakka inn. Það eru þrír stjórnarflokkar og enginn þeirra hefur á sinni stefnuskrá að ganga í ESB en samt á að keyra þennan þriðja orkupakka í gegn.

Það er líka undarlegt að þarna er verið að reyna að láta okkur gleypa heilan kjúkling í einum bita. Yfirleitt ef við erum að mata einhvern, t.d. barn, brytjum við það niður í smábita. Það er það sem núna er búið að gera.

En það sem ég er að segja er að fyrst kom pakki eitt, svo kom pakki tvö, svo pakki þrjú og svo pakki fjögur og fimm og ég veit ekki hversu margir bitar þetta verða. En þetta eiga að vera smábitar og þeir eiga að koma með jöfnu millibili. Það sem er kannski undarlegast í þessu er þessi þriðji biti. Hann hlýtur að hafa verið hrikalega seigur, bara algert seigildi sem ekki er hægt að tyggja vegna þess að það er búið að japla á honum í níu ár og þeir hafa greinilega ekki geta tuggið sig í gegnum hann þannig að þeir ætla bara að gleypa hann.

Það getur verið hættulegt vegna þess að stór biti getur staðið í manni,.Við erum að tala um safn ESB-gerða sem varða innri markað fyrir raforku og gas innan ESB. Við erum að tala um hluti innan ESB, hluti sem eru fyrir innri markað Evrópusambandsins. Og það er ekki ásættanlegt að við sem erum fyrir utan ESB og viljum ekki tilheyra ESB séum látin kyngja þessum ESB-gerðum án þess að þjóðin fái nokkru um það ráðið. Þess vegna væri ósköp eðlilegt að við myndum halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta. En það er auðvitað aldrei á borðinu vegna þess að það er vitað mál að þjóðin vill þetta ekki.

Ég fór að gamni mínu að skoða málin þegar ég fékk þessa tillögu til þingsályktunar. Þetta er gefið upp í átta liðum. Fyrstu fjórir eru reglugerðir framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins og síðan koma tvær tilskipanir. Svo kemur ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Ég fór að skoða þetta allt saman. Ég sá 93/2017 og 713/2009, þetta voru endalausar reglugerðir. Ég fór að fletta og þetta var alltaf meira og meira. Ég hugsaði með mér að það væri gaman að telja hversu margar EES-reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir væru í þessum bæklingi. En ég var ekki kominn á bls. 3 eða 4 þegar ég sagði bara, eins og í laginu um Roy Rogers: Hættu að telja, þetta er ég. Ég bara hætti að telja, þetta er EES, þetta er endalaust. Ótrúlegur fjöldi reglugerða og tilskipana sem eru þarna.

Síðan er það undarlegasta sem ég hef fengið á tilfinninguna hér í þinginu, þegar maður sér allar þessar EES-reglugerðir og tilskipanir og hvað þetta heitir, hvað við höfum lítið um þetta að segja. Þetta virðist vera færibandavinna. Það virðist vera búið að ákveða þetta allt, melta þetta, tyggja þetta ofan í okkur og við eigum bara að kyngja þessu og stimpla þetta.

Það sem mér finnst kannski undarlegast í þessu er að við hér á þinginu eigum bara að taka öllu sem sjálfsögðum hlut. Núna stimplum við þetta, þetta er bara búið. En mér finnst að við eigum einmitt að fara í gegnum þetta og senda til baka ef okkur líkar það ekki og semja upp á nýtt. Það á að vera réttur okkar hér í þinginu því við erum löggjafarvaldið. Við eigum að hafa rétt til þess að senda þetta aftur til föðurhúsanna ef okkur líkar það ekki.

Síðan reynum við að semja og fyrst þetta er samningur ætti að vera mjög auðvelt fyrir Evrópusambandið að samþykkja það. Eru þeir ekki lýðræðislegir? (Gripið fram í.) Kannski er erfitt að segja það. Hingað til hefur mér ekki fundist það en það mætti reyna. Það er ekkert sem segir það, ég hef á tilfinningunni að þó að við myndum senda þennan pakka til baka yrði okkur ekki sparkað út úr EES-samstarfinu. Ég held að það sé lítil hætta á því.

En við gætum þá a.m.k. gefið okkur betri tíma til að átta okkur á því hvað er í gangi og hvernig við getum tryggt að okkar orka, hvort sem það heitir raforka, vatnsorka eða hvað það er, sé okkar eign, sé ekki markaðsvara, sé ekki þannig markaðsvara að hægt sé að ræna arðinum af henni frá þjóðinni. En því miður virðist sú vera raunin vegna þess að það virðist vera mjög mikil ásókn hjá raforkufyrirtækjunum og erlendir sjóðir virðast vera komnir þar framarlega.

Þegar maður horfir yfir allar þessar EES-reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir, sér maður fyrir sér, og ég var að velta því fyrir mér áðan, einhvern sem gleypir allt og þá kom mér í huga svarthol. Sennilega er þetta hálfgert ESB-svarthol sem gleypir allt. Það virðist ekki vera nein ljósglæta í þessu og þar af leiðandi er þetta samnefnari, þetta er svarthol sem gleypir allt og vill eiga allt. Mér sýnist þeir stefna að því, þeir vilja eiga og ráða yfir orku allra þeirra sem eru innan ESB og EES-svæðisins. Það virðist vera stefnan. Það var að koma fram í fréttum að þeir eru farnir að óttast þetta í Frakklandi — og voru ekki ein fimm eða sex lönd sem eru að fá einhverja kæru á sig frá Eftirlitsstofnuninni, ESA?

Ég er eiginlega kominn með EES-samviskubit. Ég er bara búinn að vera hér á þessu þingi í rúmt ár. Þær eru nú nokkrar EES-reglugerðirnar og tilskipanirnar sem hafa farið í gegn og maður fékk einhvern veginn á tilfinninguna strax að það væri bara eitthvað sem maður ætti að stimpla, það væri búið að semja um þetta. En svo fór ég að átta mig á að þessir samningar fóru fram hjá okkur hér á þinginu. Það voru bara einhverjir aðrir sem sömdu þetta ofan í okkur.

Við verðum að átta okkur á að þetta er heildarorkupakki. Það er allt undir. Kannski ekki í þessum raforkupakka en það verður allt undir. Eins og ég sagði fyrr hefur þetta verið brytjað í smábita ofan í okkur og á greinilega að halda því áfram.

Ég hef oft verið að velta því fyrir mér hvernig upphafsmennirnir, þeir sem byggðu upp kerfið, raforkukerfið, hitaveitukerfið, vatnskerfið, tækju því ef þeir vissu hvað væri í gangi, hvernig þeir myndu horfa á þetta í dag. Þeir börðust fyrir þessu, með allri þeirri vinnu sem fór í það, og svo ætlum við bara að afhenda Evrópusambandinu yfirráð yfir því sem framtakssamir menn byggðu upp og komu á. Við ætlum að gera þetta smátt og smátt og enginn áttar sig á því fyrr en við erum bara komnir inn. Við erum komnir inn í ESB, komnir inn með allt, þeir eru búnir að ná þessu.

Horfum á það sem segir í þessari tillögu til þingsályktunar á bls. 3. Þar er að finna kafla varðandi hugsanlega lagningu raforkustrengs:

„… í lokin er gerð grein fyrir fyrirhuguðum lagabreytingum og hugsanlegum áhrifum hér á landi. Með tillögunni fylgja 16 rafræn fylgiskjöl með helstu gögnum sem vísað er til.“

Við værum ofsalega naív, eins og má orða það, eða ekki passasöm, ef við tryðum því virkilega að ekki eigi að leggja sæstreng, að sæstrengur verði ekki lagður. Það segir sig sjálft að sæstrengur verður lagður ef við pössum okkur ekki og stoppum það. Það segir sig sjálft að ef þessi strengur verður lagður erum við búin að missa yfirráð yfir orkunni.

Þarna kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Öll EFTA-ríkin þrjú innan EES tóku umrædda ákvörðun með stjórnskipulegum fyrirvara. Bæði Noregur og Liechtenstein hafa þegar aflétt stjórnskipulegum fyrirvara af sinni hálfu. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekur ekki gildi fyrr en öll EFTA-ríkin innan EES hafa aflétt fyrirvaranum.“

Það var eiginlega sorglegt að hlusta á þann sem kom í Kastljós, fyrrverandi dómara EFTA-dómstólsins, til að verja þennan orkupakka þegar hann sagði að við værum bara viðhengi við Noreg og ættum ekki að hafa neinar skoðanir. Við flúðum Noreg og við erum sjálfstæð og við eigum að hafa sjálfstæðar skoðanir óháð því hvað Norðmenn vilja eða vilja ekki.

Síðan er eitt mjög athyglisvert í þessum orkupakka og það er það sem kemur fram á bls. 16. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við upptöku tilskipunar 2003/54/EB í EES-samninginn var Ísland sem áður segir skilgreint sem lítið og einangrað raforkukerfi í skilningi tilskipunarinnar. Mögulegt var fyrir ríki sem flokkast sem slík að sækja um undanþágur frá tilteknum ákvæðum tilskipunarinnar. Raforkukerfi Íslands er ekki lengur skilgreint sem „lítið og einangrað“ í skilningi tilskipunar 2009/72/EB þar sem raforkuframleiðsla hér er verulega umfram þau viðmið.“

En það sem er kannski merkilegast við það er í kafla 5.6. Tilskipun Evrópuráðsins nr. 2009/73, frá 13. júlí 2009, með leyfi forseta:

„Tilskipun 2009/73/EB kemur í stað tilskipunar 2003/55/EB um sameiginlegar reglur fyrir innri markað um jarðgas. Tilskipunin setur reglur um skipulag og starfsemi jarðgasiðnaðar, aðgang að mörkuðum, skilyrði og ferla varðandi leyfisveitingar og rekstur jarðgaskerfa. Markmið tilskipunarinnar er að skýra reglur um sameiginlegan innri markað með jarðgas. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, er Íslandi veitt undanþága frá þessari tilskipun þar sem hér á landi er ekki gasmarkaður. Verður því ekki fjallað nánar um þessa gerð hér.“

Ekki gasmarkaður á Íslandi? Jú, það er víst gasmarkaður á Íslandi, eða gas framleitt og selt og gasi brennt því að við notum það ekki, brennt í stórum stíl. Ég man ekki hve marga metangas-strætisvagna væri hægt að knýja hér á höfuðborgarsvæðinu með gasi sem er verið að brenna að óþörfu, sem er ekki nýtt.

En þessi tilskipun gildir líka um raforkuna. Við erum ekki tengd Evrópu í dag með raforku og þar af leiðandi hefði þessi undanþága líka átt við um raforku, alveg skilyrðislaust. Og þetta er ekki bara þarna heldur er þetta endurtekið í kafla 5.7 og 5.8. Þar er verið að veita okkur undanþágu frá gasinu. Það er eiginlega alveg stórfurðulegt að við skulum ekki hafa fengið þessa undanþágu. Þess vegna ættum við eiginlega að senda þetta til baka, beint til baka, og krefjast þess að við fáum undanþágu fyrir rafmagnið. Málið búið. Þá þurfum við ekkert að vera að rífast um þetta lengur. En sennilega kæmi eitthvað annað enn verra með fjórða pakkanum, en við verðum bara að taka því.

Með leyfi forseta segir líka:

„[Fyrir liggur að] engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu. Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.“

Þvílík langloka.

Þetta er því miður ekki staðreynd. Það verður bara að segja það eins og er að ég treysti því ekki að sú hætta verði ekki til staðar að lagður verði sæstrengur ef við samþykkjum þetta. Ég tel því miður að það verði næsta skrefið vegna þess að ég hef einu sinni komið til Brussel og ég fór þangað í þeim tilgangi að fara á ráðstefnu um fátækt. Á þessari ráðstefnu var fólk frá öllum löndum um alla Evrópu og tekin var ákvörðun um að fara og mótmæla fyrir framan ESB. Við sem vorum þarna fyrir Íslands hönd vorum alveg tilbúin til þess. En þá kom upp sú stórfurðulega niðurstaða að það væri bannað að mótmæla fyrir framan ESB og það yrði að sækja um heimild til þess. Það tæki nokkrar vikur, ef það yrði þá yfir höfuð leyft. Það gátum við ekki sætt okkur við þannig að við töldum málstaðinn góðan og ákváðum að láta á það reyna og fórum og mótmæltum. En það var ekki nema einn þriðji sem þorði. Hinir sögðu við okkur að það væri mjög líklegt að lögreglu yrði sigað á okkur eða eitthvað þaðan af verra. En það var nú ekki gert.

Það sýndi manni svart á hvítu að maður á ekki að hræðast að berjast fyrir því sem maður telur að sé góður málstaður. Þess vegna segi ég að við eigum að berjast fyrir því að þessi samningur verði sendur heim til föðurhúsanna, að hann verði skoðaður þar og síðan fáum við undanþágu, alveg eins og við höfum fengið með gasið. Síðan þurfum við að skoða vel og vendilega fjórða orkupakkann, fimmta, ég veit ekki hvað verður, sjötta. Eftir því sem mér skilst hlýtur hitaorkan að koma næst, vatnið. Hvað fleira verður hægt að flokka með? Vindorkuna.

Við eigum að passa okkur á þessu feni sem EES-samstarfið dregur okkur út í. Við eigum að fara að hætta að taka við tilskipunum þegjandi og hljóðalaust. Við eigum að fara að mótmæla. Þingið á að fara í gegnum hlutina og senda þá til baka og reyna nýjan samning ef okkur líkar ekki það sem er verið að bjóða okkur upp á.