149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get glatt hv. þingmann með það að við getum átt í orðaskiptum um þetta mál nokkuð lengi hér á eftir, því það er alla vega ekkert fararsnið á mér. Við getum haldið áfram að diskútera þetta mál fram í nóttina.

Jú, hv. þingmaður, það er nú þannig að í þessari títtnefndu greinargerð sem þingmaðurinn vitnar til sögðu þessir tveir ágætu lögfræðingar að víst væri þetta ... Þeir drógu nú í land í einhverju seinna andsvari við utanríkisráðuneytið, ekki veit ég af hverju, þar sem þeir töluðu um að þetta í sjálfu sér kannski stæðist stjórnarskrá en væri ekki gallalaust.

En það eru fleiri menn, t.d. eins og ágætur maður sem heitir Eyjólfur Ármannsson, sem hefur goldið varhug við þessu og hann segir t.d. í grein í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

„Stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku er ákveðin með þingsályktun og því þarf að breyta henni með nýjum tölulið um að sæstrengur verði ekki lagður nema með samþykki Alþingis.“

Svo segir hann hér:

„Ekki nægir því að setja lagafyrirvara við innleiðingu á sjálfum þriðja orkupakkanum í íslenskan rétt.“

Svo segir hann hér síðar:

„Alþingi ætlar samtímis að samþykkja þriðja orkupakkann og skuldbinda Ísland að þjóðarétti til að innleiða í landsrétt áfanga í orkustefnu ESB og að setja málsgrein inn í „stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku“ sem gengur gegn orkustefnu ESB. Ekki er bæði samtímis hægt að innleiða áfanga í orkustefnu ESB og ákveða stefnu sem gengur gegn henni.“

Getur þetta skýrara verið, hv. þingmaður?

Ég segi aftur: Okkar starf hér er það flókið að við reiðum okkur á sérfræðinga í öllum málum. Þegar menn af þessum kalíberi og hinir tveir, þrátt fyrir fyrirvara sem þeir settu, setja fram þessar skoðanir verðum við að hlusta.