149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hressileg nýjung að heyra Framsóknarmann með skoðun. Hann er nú reyndar með margar skoðanir, en það er líka þeirra háttur. Nú ætla ég að lofa hv. þingmanni einu og ég bið hann um að hafa athygli á því sem ég segi núna: Nú ætla ég að taka mig til í næstu ræðu minni eða þarnæstu og lesa allt skjalið sem hann heldur á. Ég mun lesa það frá orði (HBH: Ég spurði …) til orðs og þar mun ég svara því hvers vegna þetta mál var sett fram. Sú tilvitnun sem ég las hér áðan var reyndar ekki frá þáverandi utanríkisráðherra (Gripið fram í.)— ég er með orðið núna — heldur frá þáverandi iðnaðarráðherra. En nú bið ég hv. þingmann að staldra við og taka þátt í umræðunni með okkur. Ég fagna því að hann er kominn. Búinn að taka á sig rögg og bölva í sig kjark þannig að við skulum bara halda áfram að skiptast á skoðunum um þetta. (Gripið fram í.)

Ástæðan var sú að (Gripið fram í.) við vorum á þessum tíma … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (BHar): Þingmaður hefur orðið.)

Ja, það er nú varla, hæstv. forseti. Ég held að ég hljóti að fá einhverjar 10–15 sekúndur til að tala hér óáreittur, ef ég fæ frið til þess, af því að þessum þingmanni liggur svo mikið á hjarta. Hann er náttúrlega velkominn í ræðustól, vænti ég.

Það sem ég vildi segja er að þarna var verið að taka ákveðinn afmarkaðan þátt sem var í raun og veru framhald af öðrum orkupakkanum til að laga raforkudreifingu innan lands. Jú, ég hugsa að það sé bjartara yfir á Húsavík út af þessu og verði það örugglega innan skamms. En ég hvet þingmanninn til að koma hér í umræðuna á eftir.