149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir spurninguna. Þegar við tölum um sæstrenginn og refsiaðgerðirnar og hvað sé átt við með þeim: Ég hef ekki hugmynd um það. Það er ekki einu sinni látið reyna á það fyrir sameiginlegu EES-nefndinni hver okkar eiginlega samningsstaða sé í samningi sem við teljum þó a.m.k. að við séum aðilar að og eigi að virka í báðar áttir. Það er nú það stórmerkilega í stöðunni.

Ef við leggjum t.d. sæstreng er það búið að vera á borði hjá Landsvirkjun í mörg ár og við sjáum á heimasíðunni að það á þá líka alltaf vera á okkar forsendum. Það er bara svoleiðis. Og það á ekki að bitna á íslenskum neytendum.

Ég ætla nú bara svona aðeins pínulítið að svindla því ég hef tíma og segja: Það er ótrúlegt að lesa 52 umsagnir sem við höfum fengið um þetta mál, ótrúlegt að sjá hve margir úti í samfélaginu hafa virkilegar áhyggjur.

Þess vegna segi ég: Í stað þess að þurfa að velta vöngum yfir því hvernig okkur yrði refsað og hvernig við yrðum þá rassskellt, samanber þann hræðsluáróður sem við höfum þurft að horfast í augu við núna um að við værum að skáka samningnum okkar við Evrópska efnahagssvæðið og ég veit ekki hvað, segi ég bara: Hvernig væri að láta á það reyna í eitt skipti fyrir öll og svara þessum spurningum?