149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hv. þingmaður nefndi umsögn Landssambands bakarameistara og fleiri hafa nú verið á svipuðum nótum. Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í það hvort hún muni eftir að hafa einhvern tímann séð rök fyrir því að íslensk stjórnvöld geti staðið gegn eftirfarandi dæmi:

Norskir aðilar reisa vindorkuver á Vestfjörðum. Þeir ákveða upp á sitt eindæmi og á sinn eigin kostnað að leggja sæstreng til að flytja út rafmagnið til Evrópu, með viðkomu einhvers staðar í Færeyjum og á Bretlandi, eitthvað slíkt. Þeir fara í allt það ferli sem þarf á Íslandi til að fá leyfi fyrir slíkri framkvæmd. Gefum okkur nú að íslenska ríkið eða sveitarfélög reyni að leggja stein í götu þessa félags. Höfum við fengið einhverja vissu fyrir því að Evrópusambandið muni ekki fara í samningsbrotamál eða eitthvað slíkt við Ísland fyrir að standa gegn frjálsu flæði vöru frá Íslandi til Evrópu?

Í öðru lagi: Segjum nú sem svo að íslensk stjórnvöld, hvort sem það eru sveitarfélög eða ríkið, fylgi öllum reglum og standi ekki í vegi fyrir því að þetta fyrirtæki, hvað sem það heitir, leggi sinn streng og fari að flytja út rafmagn. Er það rangt skilið hjá þeim er hér stendur, miðað við allt sem við höfum fengið upp á borðið, að verði það gert taki gildi það sem við erum að reyna að fá undanþágu frá í dag með þessum skrýtna fyrirvara, þ.e. að þá muni ACER stofnunin, í okkar tilfelli ESA, fara hér með völd (Forseti hringir.) — sem við erum að reyna að forðast í dag?