149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:29]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ja, „oft var þörf en nú er nauðsyn“, segir gamalt máltæki. Ég skil það sem svo að ef við innleiðum ekki og förum fyrir sameiginlegu EES-nefndina, höfum við raunverulega val. En ef við hins vegar förum hina leiðina og innleiðum, þá erum við komin á þann stað sem ég lýsti hér áðan í fyrra andsvari, þ.e. að við eigum, við skulum, það eru engin undanbrögð.

Það stendur hér í þessari sömu ákvörðun um sameiginlegu EES-nefndina sem ég var að lesa upp úr áðan, með leyfi forseta:

„Þegar stofnunin semur drög fyrir Eftirlitsstofnun EFTA í samræmi við þessa reglugerð skal hún tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA. Hin síðarnefnda skal setja frest sem eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna hafa til þess að gefa álit sitt á málinu, að teknu fullu tilliti til þess hversu málið er brýnt og flókið og afleiðinga sem það kann mögulega að hafa.

Eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna geta óskað eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA taki ákvörðun sína til endurskoðunar. Eftirlitsstofnun EFTA skal senda slíka beiðni til stofnunarinnar. Ef þannig ber undir skal stofnunin íhuga að semja ný drög fyrir Eftirlitsstofnun EFTA og svara án ótilhlýðilegrar tafar.“

Ég spyr þá: Hefur það verið gert? Hafa slík mál verið send þangað til þess að fá nýtt álit? Ef svo væri, ef við mundum vilja gera það, væri það þá fær leið frekar en nú?

Ég get bara ekki séð, hæstv. forseti, að þetta sé leiðin sem rétt er að fara. Og ég get ekki séð, hæstv. forseti, að rökin að þetta hafi ekki verið gert áður séu eitthvað sem hald er í. Alla vega hefur enginn getað upplýst um það hvers vegna eða hvaða hótanir felist í því að það verði pólitískt uppþot hér (Forseti hringir.) ef við förum þessa leið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé fært (Forseti hringir.) að fara ófærar leiðir eftir innleiðingu ef þær eru ekki færar nú.