149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og langar aðeins að koma inn á röksemdir fyrir stuðningi við þriðja orkupakkann og sérstaklega þá meginröksemd sem þessir sömu aðilar halda fram, að innleiðingin hafi enga þýðingu fyrir Ísland, sem er í sjálfu sér mjög sérstakt. Menn leggja mikla áherslu á þessa innleiðingu sem hefur enga þýðingu.

En ef við skoðum þetta nánar sjáum við og heyrum á málflutningi meðal stjórnarliða og þeirra sem styðja þá í þessu máli, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata, að það er ótti við pólitískar afleiðingar, sem þýðir í raun og veru að Alþingi afsali sér þeim rétti að geta hafnað þessari innleiðingu nema þá hugsanlega ef einhvers konar neyðartilvik eigi í hlut.

Og nú hafa álitsgjafar eins og Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson sagt að þessi leið sé fyllilega fær. En þá spyr maður sig á: Eiga þjóðríki, eins og við í þessu mikilvæga máli, að láta stjórnast af pólitískum afleiðingum? Við höfum lagalega leið sem er okkur fær en ríkisstjórnin vill ekki fara þessa lagalegu leið út af pólitískum ótta.

Hvert erum við þá komin sem þjóð þegar við nýtum okkur ekki þennan lagalega rétt en látum hins vegar stjórnast af einhverjum pólitískum ótta?