149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:34]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir andsvarið. Þarna komum við inn á enn eitt málið, að málaferli séu enn í gangi vegna innleiðingar þriðja orkupakkans og hvort ekki væri rétt að bíða og sjá hvernig þeim málum vindur fram. Ég myndi halda að þarna væru afskaplega skynsamlegar spurningar á ferðinni vegna þess að hér liggur ekkert á fyrir okkur. Það er ekkert í þessum orkupakka sem bráðliggur á fyrir okkur Íslendinga að innleiða, alla vega hefur það ekki komið fram í máli þeirra sem fylgja orkupakkanum úr hlaði. Ég get mér þess til að þarna vísi hv. þingmaður til ágreinings fyrir norska stjórnlagadómstólnum um hvort um verulegt eða lítils háttar valdframsal sé að ræða.

Því er öðruvísi farið í Noregi en hér þar sem við búum við það, þegar kemur að valdframsali, að stjórnarskráin okkar er þögul um slíkar heimildir, en í Noregi, ef ég fer rétt með, var gerð breyting á stjórnarskrá sem heimilar lítils háttar valdframsal án breytinga á stjórnarskrá, þ.e. með auknum meiri hluta atkvæða. Ef ég man rétt voru það þrír fjórðu hlutar frekar en fimm sjöttu, ég held það hafi verði í Danmörku. En eru menn hræddir við niðurstöðu Norðmanna? Það má vel vera að menn vilji klára að bíta höfuðið af skömminni áður en til þess kemur að sjá hvað gerist þar.