149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Eineltið heldur áfram og ég bið þig að skoða það rækilega fyrir mig.

Ég ætla að ræða um Ólaf Eggertsson bónda á Þorvaldseyri og Jón Bernódusson verkfræðing, sem eru með stórar hugmyndir um ræktun á repju. Þeir hafa sagt frá því að með því að rækta 160.000 hektara, sem eru álíka stórt svæði og Sólheimasandur og Mýrdalssandur, sé hægt að framleiða 160.000 tonn af repjuolíu, en allur fiskiskipaflotinn íslenski notar 130.000 tonn. Hver hektari skilar því einu tonni af olíu, sem er ótrúlega hátt afurðargildi, auk þess sem eftir verða tvö tonn af kjarnfóðri. Hver hektari dregur þessi sex tonn af koltvísýringi úr andrúmsloftinu á vaxtartíma plantnanna og við brennslu olíunnar kemur helmingur af því til baka. Því er um verulegan ávinning að ræða.

Hér er um einstakt tækifæri fyrir íslenska þjóð að spara sér innflutning á dýrri olíu til fiskiskipaflotans, sem hefur reyndar á ótrúlega góðan hátt minnkað koldíoxíðsútblástur sinn frá því um 1990 til — ja, eiginlega frá síðustu aldamótum og fram undir 2016 um 50% miðað við útfluttar afurðir, sem er gríðarlega góður árangur.

Við ættum að gera aðgerðaáætlun um ræktun olíujurta til framleiðslu eldsneytis sem gæti tekið okkur 5–10 ár. Við vinnslu repjunnar eru fræ hennar skilin frá stráum, sem er helmingur lífmassans. Með því að pressa fræin verður einn þriðji olía, eða 160.000 tonn, og tveir þriðju, eða 320.000 tonn af fóðurmjöli sem á að nota til að ala svín, ala nautgripi og í laxeldi. Ávinningurinn er margfaldur fyrir samfélagið og umhverfið.

Virðulegur forseti. Við erum að tala um milljarðasparnað í innfluttri olíu og minnkun á kolefnisspori landsins.

Eins og ég sagði í ræðu minni í gær um garðyrkjuna (Forseti hringir.) þá er lífið núna.

Virðulegur forseti. Vöknum og látum ekki þessi tækifæri fram hjá okkur renna.