149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé nefnilega mjög mikilvægt að hafa þetta í huga í þessu sambandi og rifja aðeins upp það mál sem ég fjallaði um áðan, þ.e. sölu á Hitaveitu Suðurnesja. Hér var reynt, m.a. úr þessum sal, að tala fyrir því að koma í veg fyrir að þetta fyrirtæki yrði selt einkaaðilum. Stjórnvöld gerðu allt sem þau gátu á þeim tíma til að koma í veg fyrir þá sölu.

Mönnum brá náttúrlega við að allt í einu væri stórt orkufyrirtæki, sem hafði verið í eigu almennings, orðið að einkafyrirtæki og þar af erlendra aðila. Þetta hafi aldrei gerst fyrr og auðvitað brá mönnum þegar þetta var orðið að veruleika og reynt var að koma í veg fyrir þetta. Skipuð var sérstök nefnd sem átti að leggja til leiðir o.s.frv. og þá væntanlega með lagasetningu.

Hver var niðurstaðan? Það var ekkert hægt að gera og þess vegna segi ég að sú hætta er fyrir hendi að við verðum kannski í sömu sporum innan fárra ára að hér verði lagst í markaðsvæðingu stóru fyrirtækjanna á Íslandi. Menn segja kannski að það sé fjarlægur möguleiki, en ég held það hafi ekki hvarflað að nokkrum manni að Hitaveita Suðurnesja ætti eftir að verða einkafyrirtæki. Það var mikið afrek sveitarfélaganna á Suðurnesjum á sínum tíma að stofna fyrirtækið. En þetta varð að veruleika og þess vegna held ég einmitt að það sama gæti gerst í þessu máli þegar búið er að innleiða það sem þarf til að komast inn á þetta sameiginlega markaðssvæði.