149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og mjög gott að hann kom einmitt inn á neytendaverndina. Þessu hafa stjórnarliðar, einkum þingmenn Sjálfstæðisflokksins, haldið hvað mest fram en athyglisvert hvernig t.d. þingmenn Framsóknarflokksins hafa gjörsamlega falið sig undir teppi í umræðunni og það vekur náttúrlega ýmsar spurningar.

Hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hefur einnig talað fyrir þessu, þ.e. neytendaverndinni og hægt sé að skipta um orkusala. Fyrir því hafa fleiri talað, eins og núverandi þingforseti, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, nefndi í grein sinni í Morgunblaðinu í gær og eins nefndi hv. þm. Vilhjálmur Árnason það í sinni grein. Reyndar er svolítið athyglisvert að lesa þessar greinar af því að orðalag er mjög svipað. Maður veltir fyrir sér hvort þau hafi borið saman bækur sínar áður en þau skrifuðu greinarnar. En það er kannski önnur saga.

Þá er rétt að hafa eitt í huga, sérstaklega með neytendavernd, að búið er að gera athuganir á því hvað mörg heimili nýta sér að geta skipt um orkusala í landinu. Það eru 0,3% heimila í landinu, sem segir alla söguna. Það eru 370 heimili af 140.000 heimilum, sem segir bara nákvæmlega það sem er í þessu, að ávinningurinn af því að skipta um orkusala er enginn. Þetta er nú öll neytendaverndin og þversagnir eru í málflutningi stjórnarliða í málinu.