149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:10]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Auðvitað er það svo að ef fyrirvarinn, alveg eins og við höfum rætt hér í þessu máli, hefur ekki hlotið afgreiðslu í sameiginlegu EES-nefndinni hefur hann bara gildi að því leytinu til sem hann er ekki í andstöðu við regluverkið í heild sinni. Regluverkið er ekki bara þessi eina orkutilskipun, frú forseti, heldur alls kyns aðrir leiðarvísar sem er að finna í regluverkinu um skýringar og túlkun á lögum. Það er ekki bara þriðji orkupakkinn sjálfur eins og dómar hafa nú einmitt gengið Norðmönnum í óhag að þessu leytinu til. Slíkir fyrirvarar verða náttúrlega alltaf skýrðir norskum stjórnvöldum í óhag ef þeir fara í bága við regluverkið sem Noregur hefur þá undirgengist.