149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það sé afar brýnt að við fáum hæstv. utanríkisráðherra í hús ef möguleiki er á til að hann fái að heyra umræðuna eins og hún er orðin nú sem, eins og fram hefur komið hjá þeim sem talað hafa á undan mér, er orðin miklu dýpri og miklu markvissari. Það eru miklu fleiri upplýsingar komnar fram en var þegar hæstv. utanríkisráðherra var hér á vettvangi.

Ég hefði líka persónulegan áhuga á að spyrja hann út í fyrirvarann sem týndist en fannst aftur og hefði viljað fara með honum yfir þá fyrirvara sem gerðir voru af hálfu íslenskra stjórnvalda við þessa innleiðingu. Ég hefði líka mikinn áhuga á að frétta af sameiginlegum skilningi hans og Evrópusambandsforkólfanna sem hann hitti. Ég hefði sem sagt viljað fá að vita hvernig sá sameiginlegi skilningur var og hvar hann myndaðist. Var það í síma eða yfir samloku og sódavatni eða einhverju sterkara? Ég hefði viljað vita allt um þetta þannig að ég hvet hæstv. forseta til að finna ráðherrann.