149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:31]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna vegna þess að hún, þrátt fyrir að margt í henni sé eitthvað sem hefur verið rætt hér áður, kemur inn á eitt sem varð allt í einu mjög ljóst, fyrir mér alla vega, og er afar áhugavert, þ.e. réttur EES-ríkjanna að hafna innleiðingu, sagði hv. þingmaður.

Það er rétt, það er réttur okkar og er hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í 93. gr. samningsins segir:

„Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skulu teknar með samkomulagi milli bandalagsins annars vegar og EFTA-ríkjanna, sem mæla einum rómi, hins vegar.“

En hvernig er þetta mál vaxið ef við skoðum það í grunninn? Noregur hefur sett átta fyrirvara við þessa innleiðingu. Ísland hefur sett — eru það einn eða tveir? Getur einhver svarað því? Eða eru þeir þrír, eða eru þeir fjórir? En þeir eru ekki endilega þeir sömu og fyrirvarar Noregs. Liechtenstein hefur hins vegar innleitt. Hér tala EES-ríkin ekki einum rómi. Þetta mál er bara ekki útkljáð í sameiginlegu EES-nefndinni.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái þetta á sama hátt og ég, að hér sé áskilnaðurinn fyrir 93. gr. EES-samningsins, um að EES-ríkin tali einum rómi, bara alls ekki uppfylltur og það að bíða eftir niðurstöðu stjórnlagadómstólsins í Noregi sé raunverulega bara heilbrigð skynsemi.