149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður las upp úr ritstjórnargrein Morgunblaðsins eða Reykjavíkurbréfi, ég man ekki hvort það var, þar sem ágætlega er lýst og farið yfir þann texta sem keyptur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar eða utanríkisráðuneytisins hafði yfir þegar hann var hér á landi eða birti í sinni greinargerð. Í þeim orðum er augljóst að alið er á einhvers konar ótta eða hræðslu við að menn leyfi sér að andmæla því sem kemur frá Evrópusambandinu eða því sem á að innleiða í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og skylda EES-ríkin til að innleiða í sinn rétt, að það sé jafn gott fyrir þau ríki að gera það annars — þetta er eins og verið sé að segja að sá fái ekki sælgæti sem tekur ekki til í herberginu sínu. Það á að hlýða, annast hlýst verra af.

Það er einmitt þetta sem grefur undan samstarfi ef annar aðilinn leyfir sér að hugsa eða haga sér svona. Nú held ég reyndar að Evrópusambandið hafi ekkert verið með slíkar hótanir gagnvart okkur fram til þessa og ég hef reyndar enga ástæður til að ætla að svo verði. Evrópusambandið vill að sjálfsögðu, eins og aðrir sem gera samninga, virða slíka samninga. Þar af leiðandi er þessi hræðsluáróður hreint með ólíkindum.

Það er svo merkilegt við það að um leið og þeir sem eru fylgjandi þessum orkupakka, sérstaklega er það athyglisvert ef það kemur frá stjórnarliðum, segja að samningurinn sé í uppnámi ef við gerum þetta, að við vitum ekki hvað bíði okkar, okkur gæti verið refsað, þá er í raun verið að segja að stjórnskipulegi fyrirvarinn sé til einskis. Til hvers erum við að setja stjórnskipulegan fyrirvara ef hann er merkingarlaus, ef við ætlum ekki að hafa neinn fyrirvara vegna þess að við erum svo hrædd?