149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Til umræðu hafa verið fyrirvarar Noregs eða Verkamannaflokksins sem setti fyrirvara fyrir því að samþykkja málið í gegnum þingið og hefur svo einhvern veginn orðið úti í kuldanum til þessa með þessa blessuðu fyrirvara.

Maður veltir fyrir sér hvort þessir átta fyrirvarar Noregs hafi eitthvert meira gildi en þessi eini fyrirvari sem íslensk stjórnvöld vilja setja í okkar samþykkt á Íslandi, fyrir utan að sá fyrirvari gildir eingöngu um aðra reglugerðina, þ.e. 713 um ACER-stofnunina, ekki um tengiregluna sjálfa sem er í gerð 714. Því spyr ég: Hafa þessir fyrirvarar í sjálfu sér eitthvert gildi? Er þetta ekki í rauninni fyrst og fremst til heimabrúks eins og fræðimenn sumir hverjir hafa sagt? Reyndir stjórnmálamenn hafa sagt þetta sjónhverfingu. En til hvers er þá verið að koma fram með fyrirvara ef þeir hafa ekkert gildi?

Þar fyrir utan spyr ég: Kannast þingmaðurinn við það úr sínu pólitíska starfi sem spannar núna tíu ára skeið í það minnsta hvort einhliða fyrirvarar sem settir hafa verið af einhverju ríki hafi eitthvert gildi þegar komið er að alþjóðasamningaborðinu, þ.e. þegar uppfylla þarf skyldu samkvæmt alþjóðasamningum? Ástæðan fyrir að ég spyr að þessu er sú að okkur ber samkvæmt EES-samningnum að uppfylla þær skyldur sem við innleiðum þegar við erum búin að innleiða. Þá getum við ekki haldið því fram eða sagt að við höfum fengið einhvern fyrirvara sem menn eiga að kannast við, líkt og var með ferska kjötið á sínum tíma. Hafa fyrirvarar sem ekki eru bundnir í lög og samþykktir af báðum aðilum eitthvert gildi?