149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður ekkert mark á því tekið ef íslensk stjórnvöld koma fyrir sameiginlegu EES-nefndina eftir t.d. tvö ár og segja: Við áttuðum okkur ekki alveg á því hvað við vorum að innleiða þarna 2019 þegar við innleiddum orkupakka þrjú. Við héldum að þetta væri allt öðruvísi og við getum bara ekki haldið þessu áfram.

Svörin verða nákvæmlega þau sömu og fengust við innleiðingu á annarri orkutilskipuninni, orkupakka tvö, þegar höfnunin á undanþágu byggðist á því að við hefðum innleitt þá orkutilskipun svo glæsilega og umfram væntingar í rauninni.

Það er alveg ljóst að ef menn ætla að bregðast við verða þeir að gera það núna. Það er líka mjög mikið ábyrgðarleysi, ég ætla að leyfa mér að nota það orð, af fylgjendum þessa máls að fá ekki krufið til mergjar og rýnt til gagns hvað felst í því að hefja þetta ferli sem fylgir orkupakka þrjú út frá því hvað stendur í orkupakka fjögur. Það liggur fyrir hvað er að koma. Þótt það taki einhverja mánuði eða tvö ár að koma hingað inn á borð til okkar er alveg ljóst hvað er í pípunum og það á að vera hvati fyrir þingmenn stjórnarflokkanna sem hafa einhverjar áhyggjur af stjórnarskránni, framsali valds, orkustefnuleysi Íslands, því að við séum að innleiða gerðir sem gefa mögulega frá okkur ákvörðunarrétt af einhverju tagi varðandi eitthvað sem tengist orkumálum okkar. Það á að vera þeim áhyggjuefni. Þeir eiga að krefjast þess að þetta sé kynnt fyrir þeim og útlistað og krufið til mergjar áður en þeir samþykkja orkupakka þrjú. Þetta liggur fyrir.