149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er spurning sem vert er að velta fyrir sér, hvaða leið sé best að fara. Ég óttast einna helst að stjórnvöld séu einhvern veginn búin að bíta það í sig, þeir ráðherrar sem fara með málið, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra, að það verði að keyra málið í gegn núna, það bara verði að ná því í gegn án þess endilega að geta rökstutt fyrir okkur hvers vegna það þurfi endilega að gerast núna.

Ef menn veigra sér við að nýta hinn lögbundna feril sem er að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar finnst mér ósköp eðlilegt að fresta því. Það eru bara ágæt rök fyrir því líka. Þó að hugsanlega megi telja hausa og segja að það væri hægt að koma málinu í gegnum Alþingi vitum við að töluverður meiri hluti þjóðarinnar vill ekki að við gerum þetta með þessum hætti. Ég held einmitt að sá hluti þjóðarinnar væri tilbúinn að skoða málið betur, nota sumarið til að kanna hvaða skref við séum að taka í rauninni og hvað sé fram undan. Það liggur á borðinu hvað er fram undan. Það má líka alveg hugsa sér þá stöðu að ef stjórnvöld útskýrðu mjög alvarlega fyrir hinum EFTA-ríkjunum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þá klemmu sem er á Íslandi vegna þessa máls gætum við ekki útilokað að það yrði bara samkomulag um að menn færu aftur yfir málið, að það þyrfti ekki að fara með það í hinn lögbundna feril heldur gætu menn sest niður og reynt að finna diplómatíska lausn.