149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er svolítið undrandi yfir því hvernig þetta þróast allt saman. Hér ræðum við um þá fyrirvara sem norski Verkamannaflokkurinn sem maður hefði einhvern tímann talið að væri frekar vinstri sinnaður flokkur setti fyrir því að málið færi í gegn. Á Íslandi er búinn til einhver furðulegur fyrirvari sem ég hef ekki heyrt neinn fræðimann segja að skipti í raun höfuðmáli. Það virðist duga til þess að íslenskir stjórnmálaflokkar, margir hverjir, vissulega ekki allir sem betur fer, einhendi sér í að hleypa þessu í gegn. Hvað varð um prinsippin fyrir t.d. því að berjast gegn markaðsvæðingu orkunnar sem Vinstri græn stóðu einhvern tímann fyrir? ASÍ er búið að álykta gegn þessu. Einn þeirra helsti talsmaður í gegnum árin á sviði verkalýðsmála, Ögmundur Jónasson, hefur talað gegn þessu eins og Alþýðusambandið. Hvernig stendur á því að menn láta sér þetta í léttu rúmi liggja? Er það vegna þess að þeir eru búnir að átta sig á því að samfylkingarflokkarnir allir ætla að hjálpa þeim að klára málið hér?