149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:20]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ein af ástæðum þess að ég spurði er einmitt sú sem þingmaður kom inn á í svarinu, það er til að sjá heildarmyndina. Í ræðu hér fyrr minntist ég á fréttaskýringu Dave Keatings, sem er fréttaritari fyrir Forbes, þar sem talað er um blaðamannafund og vitnað í Miguel Arias Cañete, orkumálastjóra Evrópusambandsins, sem kvartar undan því að þrátt fyrir að völd hafi streymt til Brussel síðustu tvo áratugina séu enn takmarkanir á því að hægt sé að seilast enn lengra. Hann stingur í raun upp á því að hægt verði að ganga enn lengra að sjálfstæði ríkja í krafti atkvæða í stað þess að vera með (Forseti hringir.) einróma samþykki ríkja innan Evrópusambandsins. Veldur þetta hv. þingmanni áhyggjum?