149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get haldið áfram með þessar vangaveltur um þetta. Kannski hefur það einfaldlega gerst að stjórnarliðar hafa hlustað á embættismenn sína sem hafa komið með þá uppástungu að innleiða þetta bara; þetta sé ekki alvarlegt og menn gætu nú komist fram hjá þessu á ýmsan hátt og hingað lægi enginn sæstrengur o.s.frv. Síðan þegar lögfræðiálitin koma ákveða þeir að fara þessa leið, sem var síðasti kostur í áliti þeirra Stefáns Más og félaga. Svo þegar málið kemur hingað inn á þingið og það kemur í ljós — mjög svo berlega að mínu mati — að þessi lagalegi fyrirvari sem við höfum verið að benda á er ekkert nema hjómið eitt þá kemur upp eitthvað sem heitir pólitískt hræðsla við að gefa eftir. Menn eru of seinir, menn sáu þetta ekki fyrir.