149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:13]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur í þessari ræðu farið yfir hluta af sögu okkar Íslendinga í virkjunarmálum og beislun fallorkunnar. Sú saga er nátengd sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og viðkomu okkar hér eða viðhaldi veru okkar á þessu harðbýla landi. Ástæða þess að ég tel að þetta mál sé jafn mikilsvert hjá hinum venjulega Íslendingi er akkúrat þessi. Það er hollt að rifja það upp í ræðustól Alþingis að það var stórátak fyrir fámenna þjóð að koma þessum virkjunum á koppinn og að geta nýtt okkar mikilvægu orku. Þessi saga er hluti af sjálfstæðinu og sjálfstæðisbaráttunni. Afleiðing þess að við höfum virkjað fallvötnin er sú að við höfum getað haldið uppi byggðastefnu og getað staðið í ábyrgri atvinnuuppbyggingu og þróun. Ég tel að andstaða landsmanna við innleiðingu orkupakka þrjú sé einmitt fólgin í því sem kristallast svo vel í sögunni um litlu gulu hænuna. Hér hafa menn sáð og þreskt kornið og malað og bakað (Forseti hringir.) en svo ætlar einhver annar að koma og borða brauðið.