149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir þessar hugleiðingar. Það er alveg kórrétt sem hann kom inn á og tengdi þessa sögu alla, sem ég hef farið yfir í mínum ræðum, við sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Það tengist einmitt því þegar þjóðin rís úr hyldýpi hinna dimmu alda. Það gekk kraftaverki næst um aldamótin 1900 þegar Íslendingar hírðust í sínum köldu og dimmu húsum sem oft voru ekki góð til íbúðar þegar bæjarlækurinn sem hafði runnið fram hjá í aldanna rás gat knúið vélar sem tendruðu svo ljós í dimmum húsum Íslendinga á þessum tíma. Það líktist kraftaverki í augum þessa fólks. Breytingin var gífurleg.

Varðandi það að fara fyrir sameiginlegu EES-nefndina vil ég ítreka að það verða auðvitað bara getgátur okkar þingmanna hér í þessum samræðum af hverju menn vilja ekki fara með þetta til þeirrar nefndar. Það verða bara getgátur, ekki síst ef engin svör fást í þessum sal um ástæður þess að ekki megi gera það. Því er ekki svarað í þessum sal og þá verða þetta bara getgátur.