149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:44]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Eins og kunnugt er geyma þingsköp ákvæði um að mönnum beri að halda sig við umræðuefnið og ekki víkja frá því með öllu.

Forseti fellst fúslega á að upprifjun á virkjunarsögunni er orkutengd og er því eðlilegt að gera ekki athugasemdir við að hún sé rædd hér. Það sama má jafnvel segja um stórmerkar teikningar sem gerðar voru á vegum Einars Ben. fyrir um 100 árum af mögulegu stöðvarhúsi við Búrfellsvirkjun. En tæplega kveðskapur Einars Benediktssonar sem skálds almennt.

Þetta segir forseti vegna þess að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson boðaði að koma með ljóðasafn hans í umræðurnar á næstunni. Það væri þá helst kvæði Einars um Dettifoss sem mætti heimfæra undir orkutengda umfjöllun (SDG: Tínarsmiðjur.) en vandinn er sá að það er lakara en kvæði Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds um sama foss. (Gripið fram í.) Ég mæli frekar með því.