149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:08]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða þess að ég bar upp þessa spurningu er að mig langaði til að ræða þetta og væri ánægður með að heyra meira kannski í seinni ræðu hv. þingmanns vegna þess að ég veit að hann hefur kynnt sér þetta mjög vel, hvort ekki sé hætta á að markmið og stefna um verðjöfnun Evrópusambandsins á raforkuverði, sem er upp á við gagnvart okkur Íslendingum af því að hér er verð á raforku lágt, hvort þetta allt muni ekki koma til með að hafa áhrif. En svo aftur hitt að raforkan fer á markað og birgjar geta keypt orku og selt hana svo áfram.

Líkurnar eru þær að hér eins og annars staðar í Evrópusambandinu myndi þessi orka, sem er skilgreind sem vara, fara inn á markaði fjármálageirans, á fjármálamarkaði. Þar gilda önnur lögmál en bara þau hversu mikið er framleitt og hversu mikil eftirspurnin er. Þar fara vogunarsjóðir að spila inn á það kerfi, sem geta keypt mikið magn til að selja það við réttu verði, en þeir geta líka selt, þeir geta skortselt. Þarna eru aðstæður sem fara kannski að myndast sem markast bara akkúrat ekkert af þessu heldur af öðrum þáttum sem myndi gera verð mjög óstöðugt. En ólíklegt er hins vegar að verðið færi niður fyrir það sem væri jafnaðarverð í Evrópu.

Það er kannski rétt að koma inn á það líka að raforkan og verðið á henni í Evrópu er nú þegar háð duttlungum veðursins og duttlungum þjóðarleiðtoga sem gæti dottið í hug að fara t.d. í stríð og hækka verð á olíu og ef verð á olíu hækkar eða gasi, (Forseti hringir.) þá hækkar það raforkuverð og eykur ennú eftirspurnina eftir orkunni sem framleidd er með raforku.