149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða greiningu á mörkuðum í Evrópu og þeim áhrifaþáttum sem geta spilað þar inn í, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega. Þess vegna og einmitt þess vegna er svo mikilvægt fyrir Evrópusambandið að það geti leitað leiða til að ná meiri stöðugleika þegar kemur að orkumálum. Það ríkir óstöðugleiki í orkumálum í Evrópu, það er rétt hjá hv. þingmanni, á sama tíma og við Íslendingar búum við stöðugleika í þeim málum. Framtíðarsýn Evrópusambandsins hvað þetta varðar er einmitt að ná því að kaupa hreina orku sem er ekki háð olíuverði, eins og hv. þingmaður nefndi, jarðefnaeldsneyti. Þetta hefur allt saman áhrif á orkuframleiðslu í Evrópusambandinu þannig að það eru miklir hagsmunir Evrópusambandsins að ná stöðugleika þegar kemur að orkuframleiðslu og orkuverði og þar skiptum við Íslendingar lykilmáli. Það er alveg ljóst.

Það hefur verið nefnt hér að EES-samningurinn verði í einhverju uppnámi ef þetta verður ekki samþykkt hér en ég held að það sé algjör hræðsluáróður. Evrópusambandið þarf á okkur að halda. Það þarf á því að halda að þessi samningur sé í gildi og það kemur ekki til með að rugga þeim báti vegna þess að hagsmunir þess eru þeir að samningurinn verði áfram við lýði og Evrópusambandið verði í góðu sambandi við okkur hvað þetta varðar. Þegar upp er staðið held ég að menn muni sjá að það er hagur Evrópusambandsins að halda góðu sambandi við okkur og allur hræðsluáróðurinn um að allt fari í uppnám hér ef við samþykkjum ekki þennan orkupakka á, að mínu mati, ekki við rök að styðjast, frú forseti.