149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Jú, þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni vegna þess að hvort tveggja er að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa hlaupið frá annars vegar landsfundarsamþykkt og hins vegar frá miðstjórnarsamþykkt um þetta mál og Vinstri græn eru, eins og hér hefur komið fram áður, orðin helsti talsmaður markaðsvæðingar raforku á Íslandi. Auðvitað skilur maður ekki þessar vendingar. Það hlýtur að vera eitthvað þarna á bak við sem við ekki vitum um og kemur þá í ljós á seinni stigum, en þá þess heldur hefði ég haldið að menn þyrftu að kynna áform sín.

Því spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé einboðið að nú verði farið í alvörukynningarherferð á þessu máli, stjórnvöld einsetji sér það. Vegna þess að mér sýnist að stjórnvöld hafi til þessa eingöngu beitt kynningu sinni inn á við, þ.e. að kenna þingflokkunum sínum að ganga í takt í málinu. (Forseti hringir.) Svo virðist að allur krafturinn hafi farið í það en ekki að kynna málið fyrir almenningi. Er ekki rétt að bæta þar úr?