149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil taka heils hugar undir orð síðasta ræðumanns, að ég held að stjórnvöld gerir sér ekki grein fyrir því í hvaða ógöngur þau hafa ratað með þetta mikilvæga mál, það verður að segjast eins og er, að við skulum við ekki hlusta á okkar helstu sérfræðinga í þessu máli. Mér fannst dæmið sem hæstv. hv. þingmaður tók um leiðarvísirinn vera mjög gott og klassískt dæmi um kjarna þessa máls, að hér er ekki hlustað á þann sem kom að samningsgerðinni, kom að leiðarvísinum, eins og hv. þingmaður nefndi svo ágætlega. Nei, heldur skal hlustað á þá sem telja sig vita hvernig leiðarvísirinn eigi að vera.

Það er því miður dapurlegt að við skulum ekki nýta okkar besta fólk í þessum efnum sem hefur bestu upplýsingarnar og þekkir hvernig að málum var staðið. Vegna þess að við þekkjum að þegar menn greinir t.d. á um löggjöf eða lagasetningu er farið í greinargerð með lagafrumvarpinu eða lögunum til þess að reyna að skilja vilja löggjafans. Hún er svokallað lögskýringargagn. Þá fá menn hugmyndirnar á bak við það hvers vegna lagatextinn er með þessum hætti.

Ég tel að nákvæmlega það sama eigi við í þessu máli. Við eigum að ræða við þá sem komu að samningsgerðinni fyrir okkar hönd í upphafi. Þeir þekkja málið best. Þeir vita hugmyndafræðina, þekkja greinarnar, eins og kemur svo glögglega í ljós í þessari ágætu umsögn fyrrverandi utanríkisráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem mér finnst að hafi ekki fengið nógu mikla athygli í þessari umræðu. Ég verð að segja eins og er að það veldur mér vonbrigðum að svo hafi ekki verið. Ég ætla svo sannarlega að vona menn fari að rýna betur í álitið vegna þess að það er margt mjög fróðlegt þar.

Þar segir fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannesson t.d. í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Höfnun innleiðingar hefur ekki í för með sér nein viðurlög. Afleiðingin er sú, að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem samið er um málið. Þar með fást þeir einu fyrirvarar, sem öruggt hald er í.“

Svo segir í greinargerð Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að það er óskiljanlegt í mínum huga að við skulum ekki hlusta betur á mann eins og Jón Baldvin sem þekkir þetta mál svona vel. Hann segir áfram í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Margir virðast nú hafa gleymt því, að sá mikli árangur sem náðist fyrir Íslands hönd í EES-samningunum, var ekki auðsóttur. Mér er til efs, að hann hefði náðst án stuðnings samstarfsþjóða okkar í EFTA. Þetta á t.d. við um fríverslun með fisk. Ég ræð það af reynslu okkar af EES-samningnum á sínum tíma, að við hefðum aldrei náð þeim árangri í tvíhliða samningum. Sama máli gegnir um því sem næst fullan markaðsaðgang að innri markaðnum, án þess að ESB héldi til streitu stefnu sinni um aðgang að auðlindum í staðinn fyrir aðgang að markaði. Þar við bætist, að Ísland fékk sérstaka undanþágu, sem heimilar ekki erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Þetta er kjarni málsins.“

Þannig að við sjáum að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, þekkir þetta mál afar vel. Þess vegna er það ótvírætt í mínum huga að við eigum að hlusta á ráðleggingar hans í þessum efnum. Hann hefur tjáð sig bæði í ræðu og riti undanfarið um það ferli sem hér er í gangi af hálfu stjórnvalda. Hann telur að stjórnvöld (Forseti hringir.) séu á rangri braut í þessum efnum. Ég er honum algerlega sammála í þessu (Forseti hringir.) og tel að við eigum að fá að nota (Forseti hringir.) kunnáttu hans til að leiðbeina okkur um næstu skref í þessum efnum sem eru skýr.