149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:32]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir þessa góðu ræðu. Hann kemur inn á smjörklípuaðferðina og að verið sé að reyna að setja okkur, sem erum í andstöðu við innleiðingu á þessum þriðja orkupakka, í einhvers konar vörn. Ég held að þetta sé hárrétt greint og metið hjá hv. þingmanni. Meginstefið í málflutningi þeirra sem hafa haldið þessu fram er pólitísk upplausn, að sú leið að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar sé ófær sökum pólitískrar óvissu og alvarlegra afleiðinga sem það gæti haft og að það sé niðurstaða þess fróma manns, dr. Carls Baudenbachers. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur kynnt sér það álit og það hef ég einnig gert.

Á bls. 7 í 15. tölulið í áliti Carls Baudenbachers, sem var lagt fyrir utanríkismálanefnd, segir í lauslegri þýðingu þess sem hér stendur, þar sem við höfum ekki fengið það þýtt á íslensku, um andstöðu Íslands:

„… að hún snúist að megin hluta um innleiðingu á reglugerð 713/2009 um ACER. Sjónarmiðum hefur verið haldið á lofti að Ísland skyldi taka málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni með það að markmiði að semja um aðra aðlögun eða niðurstöðu fyrir Ísland vegna þriðja orkupakka, alls orkupakkans, einkum reglugerðar 713/2009.“

Lokaorðin í þessari grein eru: That would do (Forseti hringir.) no harm, upp á enska tungu, sem mundi útleggjast á íslensku: Það væri að meinalausu. Hvert er álit hv. þingmanns á þessum orðum?

(Forseti (GBr): Forseti vill brýna hv. þingmenn til þess að virða knöpp tímamörk, vera vel vakandi yfir þeim þætti.)