149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni andsvarið. Ég verð að viðurkenna, og ég hálfskammast mín fyrir það, að ég hef ekki lesið umsögn fyrrverandi alþingismanns, Hjörleifs Guttormssonar, en mun bæta úr því á eftir. En kenning fyrrverandi alþingismannsins harmónerar svo sem við það sem hefur verið alltumlykjandi í málinu frá því að umræður hófust, það sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, kallaði lofsverðar blekkingar og sneri að hinum meintu fyrirvörum. Ég held að hagsmunirnir sem eru undir séu þeirrar gerðar að það er mikið á sig leggjandi, ímynda ég mér, fyrir þá sem eru í þessum bransa til að tryggja framgang lagningar sæstrengs.

Ég er þess fullviss að þegar hafi margir aðilar fjárfest í hinum ýmsu vekefnum, að það hafi miklir fjármunir farið í undirbúning slíks. Það er allt sem bendir til þess að þriðji orkupakkinn, innleiddur með hefðbundnum hætti, eins og segir í gögnum frá utanríkisráðherra, muni setja regluverkið allt í þá stöðu að haganlega sé búið að rúlla út, ef svo má segja, ég ætla nú ekki að segja rauðum dregli, það væri kannski nokkrar ýkjur, en það er alla vega búið að setja regluverkið allt í þann gír að (Forseti hringir.) sæstrengur passi vel þar inn.