149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Já, ég held að það sé ágætiskenning, að það sé rík tilhneiging til þess að fara þá leið sem kann að virðast einföldust, og ekki bara það, heldur þá leið sem kann að virðast einföldust þann daginn. Ég myndi vilja bæta við kenningu hv. þingmanns og um leið þá svara vangaveltum hans og segja að hluti vandans kunni að vera sá að menn líta ekki til heildarútkomunnar og menn ekki til langtímaáhrifanna. Ef þeir gerðu það þá, í sumum tilvikum a.m.k., myndu menn kannski telja að besta leiðin væri sú sem kann til að byrja með, til skamms tíma, að virðast erfiðari. En ef menn líta bara á það hvað er auðveldast að gera þann daginn er hættan sú að menn fari í rangan farveg.

Í samhengi við það mál sem við ræðum hér nægir að nefna til að mynda þegar stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar, fara í viðtal og lýsa því yfir sem þeim þykir auðveldast að lýsa yfir þann daginn, jafnvel þótt það gangi gegn því sem þeir eru raunverulega að vinna að, lýsa því t.d. yfir að þeir hafi miklar efasemdir um þennan þriðja orkupakka og ekki hafi tekist að sannfæra þjóðina um innleiðingu hans, en meina ekkert með því og skapa sér fyrir vikið þeim mun stærri vandamál þegar fram líða stundir og í ljós kemur að yfirlýsingar þeirra voru algerlega innihaldslausar.