149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mér leikur satt að segja forvitni á að vita það. Þess vegna spurði ég hér í lok ræðu minnar: Hvað hefur gerst? Í mjög góðu viðtali, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi, við hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson var hann líka býsna eindreginn í andstöðu sinni við þetta mál.

Hér fáum við mjög gott viðtal við þennan ágæta þingmann og hann færir mjög góð rök, finnst mér, fyrir þeirri afstöðu sinni, fyrir sirka 12 mánuðum, að hann sé algerlega á móti orkupakka þrjú. Ég kaupi alveg hans skýringar. Þess vegna finnst mér svo athyglisvert að nú, um 12 mánuðum seinna, skuli þeir ágætu þingmenn sem hafa tjáð sig hafa umturnast svona algerlega í afstöðu sinni til orkupakkans.

Ég segi líkt og hv. þingmaður stakk upp á: Mér fyndist fengur að því að vita akkúrat hvað það var sem olli sinnaskiptum þessara ágætu þingmanna og hæstv. ráðherra. Kannski hef ég bara misst eitthvað fram hjá mér. Kannski er eitthvað alveg stórkostlegt í þessum pakka sem ég skil ekki. Kannski hafa einhverjar breytingar orðið, málinu svona gjörsamlega í hag að ég sit bara eftir og skil hvorki upp né niður í því. Það væri fengur að því að fá að heyra það.

En menn gefa ekki kost á viðtali, eins og maður segir, og hafa ekki treyst sér til eða kært sig um að vera hér í salnum með okkur og svara þessum einföldu spurningum. Hvað olli því að þessi sinnaskipti áttu sér stað? Hvað er það sem við skiljum ekki í þessu máli sem er svo stórbrotið að það hafi stuðlað að þessum sinnaskiptum?