149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég viðurkenni það að ég er á svipuðum slóðum og hv. þingmaður sem talaði á undan mér. Nú hefur mér skilist að þegar umræða fór fram um annan orkupakkann á sínum tíma þá hafi hún verið nánast engin, að málið hafi, eins og við köllum það stundum hér á þingi, bókstaflega runnið í gegn athugasemdalítið. Áhrifin sem sá pakki hafði m.a. á orkuverð til fjölskyldna og fyrirtækja urðu til þess að sporin hræddu, alla vega hvað mig varðar, lái mér hver sem vill. Þess vegna er það einboðið af minni hálfu að orkupakki nr. þrjú er akkúrat sá pakki þar sem við ættum að staldra við, stíga niður fæti og segja: Hingað og ekki lengra í bili, athugum nú hvert við erum að fara. Athugum hvert pakki eitt og tvö hafa skilað okkur. Athugum hvað felst í pakka nr. fjögur sem er handan við hornið. Tökum einfaldlega alvöruumræðu um þetta mál og reynum að afgreiða það eftir það.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann hafi skýringu á því hvers vegna þetta hafi verið svona með þann annan. Í raun og veru finnst mér núna að í upphafi vegar með þriðja orkupakkann hafi ríkisstjórnarflokkarnir nánast reiknað með og ætlast til að hann yrði afgreiddur á sama hátt og nr. tvö hafði verið gerður á sínum tíma. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Hvaða skýringu hefur hann á því að á sínum tíma rann annar pakkinn í gegnum þingið eins og heitur hnífur í gegnum smjör?