149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurningarnar. Ég ætlaði að halda aðeins áfram með gildi þessara lagalegu fyrirvara, hvort þeir muni halda ef á þá reynir. Það alveg ljóst og við höfum rætt það hér að ef við samþykkjum þessa þingsályktunartillögu erum við skyldug, herra forseti, til að innleiða þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins. Þá mega engin lög í landinu fara í bága við hana. Við þurfum að aðlaga lögin, breyta og fella niður eitthvað sem fer í bága við hana. Við erum bundin af henni.

Nú segja menn: Hér er enginn sæstrengur. Það er auðvitað fullt af öðrum reglum í þessu regluverki sem við gætum þurft að svara fyrir ef upp koma tilvik sem ég hef ekki hugmyndaflug til að ímynda mér hver gætu orðið. Þetta er svipað og lítið bæjarfélag úti á landi myndi ákveða: Við ætlum ekki að láta umferðarlögin gilda hér, ekki í þessu bæjarfélagi. Bæjarstjórnin samþykkir það. Það eru hvort sem er engir vegir hérna og engin bifreið á staðnum, segir hún. Lögreglustjórinn í umdæminu lýsir því yfir að það sé alveg rétt hjá bæjarstjórninni, það séu engir bílar þar þannig að engin umferðarlög gildi. Hefur það eitthvert gildi? Ef maður kæmi þarna á einhvers konar ökutæki, lenti í árekstri og vildi fara í mál, haldið þið að umferðarlögin myndu ekki gilda, alveg sama hvað bæjarstjórnin hefði samþykkt eða lögreglustjórinn eða jafnvel þó að ráðherra hefði imprað á því að að sjálfsögðu giltu engin umferðarlög í bæjarfélagi þar sem engir vegir væru og engin farartæki? Ég held að þeir sem myndu lenda í ágreiningi þarna myndu auðvitað strax rífa upp umferðarlögin og leita réttar síns.