149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður geti verið mér sammála um eitt. Ég vildi ekki óska nokkurs frekar en þess að ég hafi rangt fyrir mér um það mál sem hér er borið fram. Ég vildi mjög gjarnan óska þess að þetta mál væri „ekkert mál“, eins og stjórnarþingmenn vilja halda fram og stjórnarmeirihlutinn, að þetta mál muni í sjálfu sér engu breyta en efla neytendavernd þannig að fleiri en 350 af 140.000 heimilum í landinu geti skipt árlega um birgja á rafmagni. Ég vildi óska þess að það væri þannig. Og ég óska þess heitar en alls annars að ég geti eftir tíu ár horft framan í barnabörnin mín og sagt: Ég hafði rangt fyrir mér. Það góða fólk sem samþykkti þennan gjörning hafði rétt fyrir sér.

Ég óttast hins vegar að það verði ekki þannig. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Miðflokksfólkið stendur eitt og bendir á hluti sem það telur að gætu farið til betri vegar. Það er svo merkilegt, herra forseti, að oftar en ekki hefur það akkúrat komið á daginn. Þetta segi ég ekki til að hreykja mér af því heldur segi ég það vegna þess að ef maður hefur sterka tilfinningu og sannfæringu fyrir því að maður sé að gera rétt þá heldur maður því áfram, alveg sama hvort einhverjir séu að naga í mann meðan þeir maula á brauði frammi í kaffistofu, að hér sé bullandi málþóf og að við séum hér að skjalla hver annan með hjákátlegum hætti, eins og einn ágætur hv. þingmaður orðaði það. Það skiptir okkur engu máli. Það sem skiptir okkur hins vegar máli er hvatningin sem við fáum frá fólkinu í landinu í formi skeyta og símtala, SMS-skeyta o.s.frv. þar sem það (Forseti hringir.) biður okkur um að halda áfram þessari baráttu. Það er það sem skiptir okkur máli í þessari umræðu, herra forseti.