149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Án þess að sálarástand þess sem hér stendur skipti öllu máli skal það upplýst að hann er aldrei vonlaus, hann gefst aldrei upp, lætur aldrei hlut sinn fyrir neinum. Á meðan að okkur streyma kveðjur, skeyti, beiðnir um að halda áfram baráttunni þá gerum við það. Og þótt einhverjir úrtölumenn séu hér að naga lággróðurinn skiptir það ekki máli. Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að þegar horft verður til baka, hvernig sem þetta mál fer, þá geti maður sagt við sjálfan sig í enda dags: Við gerðum þó alla vega allt sem við gátum til að reyna að afstýra þessu.

Ef við getum gert það með góðri samvisku, þá er mikið fengið. Það skiptir engu máli hvað gerist í lággróðrinum, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það skiptir okkur engu máli hvort einhverjir hælbítar séu á eftir okkur út af því hvernig við högum málflutningi okkar hér, skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er að við erum að vinna fyrir meiri hluta fólks í landinu og við finnum að við erum að gera það af því að það fólk lætur okkur vita. Þá skiptir ekki máli hvort einn og einn hælbítur sé að skemmta sér og kalli okkur hálfvita eða eitthvað slíkt. Það skiptir bara ekki nokkru einasta máli og segir meira um þann sem heldur uppi slíku en okkur.

Til að svara þingmanninum aftur skýrt: Nei, sá sem hér stendur er ekki vonlaus. Hann trúir enn á að hægt sé að koma viti fyrir fólk, vegna þess að hann trúir á skynsamt fólk — eins og hæstv. forseta hér, að hann geti kannski komið einhverri skynsemi til leiðar í sínum flokki svo að þetta mál verði gaumgæft betur, unnið betur og komið í betra horf.