149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það sem mig langar að koma aðeins inn á við hv. þingmann er þessi aukni áhugi sem er núna hér á landi meðal fjárfesta að fjárfesta t.d. í vindorkuverum og reyndar fleiri orkuvinnslum, þ.e. vatnsaflsvirkjunum rétt undir 10 megavöttum. Nú eru þessar fjárfestingar, eins og í vindorkuverum, mjög dýrar. Það eru mjög dýrar fjárfestingar sem felast í vindorkuverum og við erum að sjá að verið er að óska eftir matsáætlunum og öðru slíku fyrir vindorkuver sem eru, að mér skilst allt að 40, 50 vindmyllur, sem þýðir að gríðarlegur kostnaður felst í því.

Það er alveg ljóst að þeir sem standa að slíkum verkefnum vilja náttúrlega að verkefnið sé arðbært og myndu aldrei leggja í þá gríðarlegu fjárfestingu ef þeir sæju ekki fram á arðsemi verkefnisins. En í ljósi þess að nú er orkuverð á Íslandi það lægsta í Evrópu, þá hlýtur það að skjóta svolítið skökku við að þessar dýru fjárfestingar muni borga sig með því að selja orkuna hér innan lands. Ég held að það muni tæpast ganga upp. Þeir hljóta að sjá einhver önnur tækifæri sem hljóta þá að vera í þeirri hreinu orku og selja hana til Evrópu. (Forseti hringir.)

Er það ekki þannig, hv. þingmaður, að í hugum þessara fjárfestingaraðila er stefnt (Forseti hringir.) á einn veg, þ.e. selja orkuna til Evrópu?