149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef aðeins í ræðum mínum fjallað um það hvernig þingmenn og ráðherrar hafa sagt eitt og gert annað þegar kemur að umfjöllun um þetta mál. Það vekur upp ýmsar spurningar. Ég hef t.d. vakið athygli á því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skipt um skoðun í þessu máli ef maður lítur á ræðu sem hann flutti hér 22. mars 2018. Það er áhugavert að vitna í þá ræðu. Með leyfi forseta, segir hæstv. fjármálaráðherra á síðasta ári:

„Það sem ég á svo erfitt með að skilja er áhugi hv. þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana?“

Þetta er mjög eðlileg spurning. Síðan er þessi sami stjórnmálamaður, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, nú að fara að innleiða tilskipun Evrópusambandsins í broddi fylkingar sem felur einmitt í sér að við komumst nær því að vera undir boðvaldi Evrópusambandsins hvað þennan mikilvæga málaflokk varðar. Hér er mjög athyglisvert dæmi um það hvernig stjórnmálamenn geta algjörlega umpólast í skoðunum sínum. Það vekur að sjálfsögðu áhyggjur og auk þess tel ég að það hafi mjög slæm áhrif á traust gagnvart þinginu og hvernig almenningur ber virðingu fyrir stjórnmálunum og stjórnmálamönnum.

Ekki er langt síðan að skrifstofustjóri Alþingis, sem hefur verið hér um árabil og kemur til með að láta af störfum eftir farsælt starf hér á haustmánuðum, lét hafa eftir sér í viðtali — hann var spurður sérstaklega hvort ekki væri áhyggjuefni hvað almenningur hefði lítið traust gagnvart þinginu og hvernig væri hægt að bæta það. Þá hjó ég sérstaklega eftir svarinu og það var einmitt á þann veg að hann teldi affarasælast að stjórnmálamenn stæðu við það sem þeir segðu. Þá komum við einmitt að því að við sjáum það hér aftur og aftur, og sérstaklega endurspeglast það í þessu máli, að stjórnmálamenn segja hér eitt og gera svo annað. Það þurfa ekki að líða nema jafnvel nokkrir mánuðir, í mesta lagi eitt ár, og þá eru þeir algjörlega búnir að umpólast í þessu.

Það má líka minnast á mjög öflugar og kröftugar ræður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, sem hann flutti hér í tengslum við innleiðingu orkupakka eitt og tvö þar sem hann mælti alfarið gegn innleiðingu þessara orkupakka og var með sérálit í utanríkismálanefnd, mjög vel rökstutt álit, og flutti mál sitt mjög vel eins og honum er einum lagið. Núna hefur hæstv. forseti, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, verið fylgjandi því að innleiða orkupakka þrjú.

Þetta vekur mann til umhugsunar um hvernig við getum bætt stjórnmálin og hvers vegna menn skipta svona um skoðun. Ég held að almenningur eigi rétt á því að fá haldbærar skýringar á því hvers vegna menn umpólast í svona stórum og mikilvægum málum. Ég held að það sé alveg fullkomin, réttmæt og eðlileg krafa að þeir geri svo.

Ég hef rakið þetta hérna í nokkrum ræðum og hyggst gera það áfram og fjalla nánar um Sjálfstæðisflokkinn hvað þetta varðar vegna þess að það er kannski mest áberandi innan hans, myndi ég segja, (Forseti hringir.) á síðustu mánuðum og óska því eftir að vera settur aftur á mælendaskrá.