149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:31]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna og fyrir taka upp þennan vinkil, ef svo má að orði komast, um efnahagslegar afleiðingar eða kannski áhrif, ekki endilega bara afleiðingar, af innleiðingu þriðja orkupakkans. Það er alveg ljóst að orkan okkar, þessi hreina, endurnýjanlega orka, er gríðarlega verðmæt auðlind. Hún hefur veitt fyrirtækjum og iðnaði hér á Íslandi samkeppnisforskot, m.a. hátækniiðnaði sem tengist nýsköpun og hugviti, sem er svo nátengdur fjórðu iðnbyltingunni — og nú er farið að tala um fimmtu líka — og í því felast framtíðarmöguleikar, til að mynda gagnaver eða framleiðsla og þróun á hátæknibúnaði, hvort sem það kann að vera í stoðtækjaframleiðslu eða í framleiðslu á iðnaðarvörum sem tengjast matvælaframleiðslu og öðru þar sem við Íslendingar höfum staðið mjög framarlega.

Samkeppnisforskotið myndast einkum vegna kostnaðar við orku. Laun eru tiltölulega há á Íslandi og flutningskostnaður vörunnar er jafnframt hár. En samt sem áður er það kostnaðurinn við orkuna sem gerir að verkum að fyrirtæki geta staðsett sig hér á Íslandi og borgað góð laun fyrir slíkan iðnað, að því gefnu að orkan sé á réttu verði. (Forseti hringir.) Er ég á réttri braut hér, hv. þingmaður?