149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég er dálítið á þeim slóðum að vera að hugleiða enn þá þær kárínur sem við fengum hér, Miðflokksmenn, í kvöld af hendi annarra þingmanna sem úthúðuðu okkur fyrir málþóf og hvað við eiginlega vildum upp á dekk, það þyrfti að breyta þingsköpum og ég veit ekki gera hvað vegna þess að við værum búin að hertaka þennan þingsal, taka hann í gíslingu og ég veit ekki hvað.

Við höfum reynt að benda á það að við séum að ræða þetta mál í þaula vegna þess að afstaða okkar í þessu máli nýtur, að því er virðist, stuðnings meiri hluta þjóðarinnar. Við höfum lagt á það áherslu að þetta mál sé stærra en pólitískir flokkar, það skipti svo miklu máli að ekki eigi að læsa það inni í pólitískum skotgröfum.

Það er einn maður sem ég veit um sem virðist hafa kveikt á þessu og hann birti lítinn pistil núna í gær, eða í gærmorgun. Hann heitir „Málþófið endurspeglar þjóðarviljann“. Þessi ágæti maður kýs reyndar að kalla það sem við erum að gera hér málþóf og hann segir svo:

„Málþófið, sem nokkrir þingmenn hafa haldið uppi á Alþingi að undanförnu vegna þeirra áforma þingmanna stjórnarflokkanna, að samþykkja orkupakka 3 er endurspeglun á þjóðarvilja, eins og hann hefur komið fram í skoðanakönnunum um málið. Þess vegna á ekki að atyrða þá fyrir það heldur þakka þeim.“

Ég þakka kærlega fyrir þetta, en þetta er nú kannski ekki það sem ég var að leita eftir. Það segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa tekið að sér það hlutverk að leiða þetta mál. Með því eru þeir að gera mestu mistök, sem flokkurinn hefur gerzt sekur um í utanríkismálum. Slík mistök eru ekki mörg, en aðallega á undanförnum árum. Þá er átt við áform, sem þáverandi forystusveit flokksins hafði uppi um að breyta stefnu flokksins gagnvart aðild að ESB en hrökklaðist til baka með, þegar grasrótin reis upp, stuðningur sumra þingmanna við Icesave á sínum tíma og þátttaka í blekkingarleiknum með aðildarumsóknina í marz 2015, sem nú hefur verið afhjúpaður rækilega. Ein slík mistök má nefna frá fyrri tíð, en það var stefnumörkun um nýjan áfanga í útfærslu fiskveiðilögsögunnar fyrir þingkosningarnar 1971. Afleiðing þess sem nú er að gerast á Alþingi er að stórir hópar stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins treysta núverandi þingmönnum ekki lengur. Það er alvarlegt.“

Svo mörg voru þau orð. Og ég verð að segja, herra forseti, að þetta eru býsna alvarleg orð frá manni sem er búinn að þekkja til í Sjálfstæðisflokknum í 55 ár, ef ekki lengur. Hann er alla vega með það á hreinu að það sem við erum að gera hér er ekki eitthvert prívatflipp Miðflokksmanna, heldur, eins og hann segir réttilega, endurspeglar þjóðarviljann. En hann virðist vera eini maðurinn í þessum ranni sem skilur þetta. Það er út af fyrir sig alvarlegt og sýnir okkur og öllum öðrum enn betur að þingmenn stjórnarflokkanna virðast vera gjörsamlega úr tengslum við stuðningsmannanet sitt. Það hlýtur að vera áhyggjuefni þó að það komi ekki í ljós vegna þess að menn eru einfaldlega svo forstokkaðir að þeir virðast ætla að keyra þetta mál í gegn sama hvað. Væntanlega fá þeir þá að finna það seinna meir (Forseti hringir.) hvað slík slíkt atferli hefur í för með sér.