149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er laukrétt hjá hv. þingmanni. Það hefur kannski ekki farið hátt í umræðunni utan þessa húss að auðvitað hafa Miðflokksmenn boðið upp á þann möguleika að málinu yrði frestað og nokkrum málum hleypt fram fyrir, þ.e. að hægt væri að afgreiða mál til nefnda og úr nefndum o.s.frv. Boðið hefur verið upp á það. Hér bíða stór mál úrlausnar. En það virðist ekki hafa verið hljómgrunnur eða áhugi fyrir því að gera það. Menn sitja bara við sinn keip, að því er virðist, og, ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta, vonast til þess að við Miðflokksfólkið guggnum og gefumst bara upp og leggjumst út af. Það getur vel verið að við hefðum gert það þó að málið sé stórt, ef við hefðum ekki skynjað þann þjóðarvilja sem Styrmir Gunnarsson talar réttilega um í pistlinum sínum í gærmorgun. Vegna þess að okkur finnst ekki hægt að ganga frá þessu máli óræddu og greiða um það atkvæði núna í svona hrikalegri og hróplegri andstöðu við meirihlutavilja þjóðarinnar. Það er bara ekki hægt. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það. Þess vegna erum við hér og getum ekki annað, eins og maðurinn sagði. Það er vegna þess að ekki er hægt að skilja við málið á meðan svona afgerandi andstaða er gegn því úti í þjóðfélaginu. Þá værum við að bregðast skyldum okkar.

Ég segi það enn: Þetta mál snýst ekki um Miðflokkinn sem slíkan. Þetta snýst ekki um flokkapólitík. Þetta snýst um þjóðarvilja sem við eigum að viðurkenna og taka mark á.