149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er athyglisverð umræða þegar kemur að þeim stjórnmálaflokkum sem hafa lagt ríka áherslu á að þetta mál fari hér í gegn og eru í raun og veru að reyna að keyra það í gegn á sama tíma og í fullri andstöðu við grasrót þessara flokka. Þá spyr maður sig óneitanlega: Hvað veldur? Hvað fær þessa stjórnmálaflokka og leiðtoga þeirra til að ganga svona í berhögg við grasrót þeirra og stuðningsfólk? Og svo snýr þetta náttúrlega að þjóðinni allri í heild sinni, því að mikill meiri hluti þjóðarinnar er á móti þessu máli.

Ég hef ákveðna kenningu í þessum efnum. Ég held að þeir sem halda um stjórnvölinn, ríkisstjórnin, séu haldnir ákveðinni óttablandinni virðingu gagnvart Evrópusambandinu. Það skorti bara djörfung, hugrekki stjórnmálamanna til að standa fast á sínum skoðunum, standa fast á sérstöðu okkar sem þjóðar sem býr við allt annað umhverfi í raforkumálum en Evrópusambandið, en þeir hafi bara ekki kjark eða þor til að standa á okkar sérstöðu hvað þetta varðar. Fyrir því er eflaust sú ástæða að þeir eru hræddir við að þetta komi okkur illa með einhverjum hætti, sem er að mínu mati algjör misskilningur.

Mig langar að fá álit hv. þingmanns á því hvort hann geti verið sammála mér í þessu að þarna skorti kröftuga og öfluga leiðtoga með djörfung.